Sunday, September 11, 2005

Nokkrar staðreyndir

Nú bý ég í Noregi. Hér koma nokkrar staðreyndir um búsetuhætti hér:
Skólinn minn er í Fellabæ Noregs, og þar bý ég. Fellabærinn heitir Ridabu og liggur ca. 3 kílómetra frá Hamar (Egilsstöðum).
Allir nemendur skólans búa í litlum húsum sem liggja 20-273 metra frá aðalskólabyggingunni. Ég bý í húsinu sem er lengst frá skólanum, þannig að ég þarf að labba heila 273 metra í skólann. Það er rosalegt þegar haft er í huga að hér er að jafnaði 3 metra jafnfallinn snjór og 30 stiga frost á veturna.
Húsið mitt heitir Hús E. Þar búa 6 Norðmenn, 1 Íslendingur og draugaálfur. Hann býr í skáp í eldhúsinu.
Rektorinn býr á miðju heimavistarsvæðinu. Hann heitir Jón. Hann á eina konu, tvö börn og grís sem heitir Biffen.
Í skólanum eru 153 nemendur. Þar af eru milljón Norðmenn, einn Dani, fjórir Suður-Afríkanar, ½ Finni og 2 ¾ Íslendingar.

Fyrsta vikan fór í að hlusta á langa fyrirlestra um allt sem er bannað að gera á skólasvæðinu. Hér er engan vegin tæmandi listi yfir það sem er bannað:
Hassreykingar og neysla annarra vímuefna (þ.á.m. áfengis)
Æfa sig í heimavistarhúsunum
Gera grín að svertingjum sem kunna ekki norsku
Gefa grís rektorsins að borða
Gera grín að þroskaheftum
Vera undir áhrifum áfengis eða annarra vímuefna. Ef maður kemur fullur heim á maður að fara beint að sofa Í SÍNU EIGIN RÚMI!!
Vera með læti í mötuneytinu.
Vera með læti í húsinu sínu eftir klukkan ellefu á kvöldin.
Fara með bollana úr mötuneytinu og skilja þá eftir útum allt
Mæta í minna en 90% tíma
Vera með gæludýr (krakkarnir í Húsi 6 eru samt með gullfiska)

En það má vera með draugagæludýr, þannig að draugaálfurinn er ekki bannaður.

Eina alvöruskóladaginn sem hefur verið fram að þessu (á þriðjudaginn) tókst mér að rífa kjaft í báðum tímunum sem voru fyrir hádegi. Nokkuð góður árangur þar sem maður verður að tala á norsku. Í fyrsta tímanum eftir hádegi var ég send til skólastjórans. Hann bauð mér vinnu í tónskóla í næsta bæ. Á morgun kemur skólastýran úr þeim skóla til að hitta mig.
Hér er ekki gert ráð fyrir að maður geti gert neitt sjálfur, þannig að öll samskipti við skrifstofur (í sambandi við flutningsvottorð, umsóknir um norskar kennitölur o.s.frv.) fara fram í gegnum skrifstofu skólans. Þar eru konur sem sjá um að redda öllum þeim pappírum sem þarf að fylla út og senda á viðeigandi staði. Það eina sem maður þarf að gera er að fylla út pappírana skv. nákvæmum upplýsingum skrifstofukvennanna. Afar þægilegt.
Á miðvikudaginn fóru allir nemendur skólans í tveggja daga “hytte-ferð”. Það var ..........u........já. Orðum það bara þannig að sú ferð hefði alveg mátt missa sín. Ferðin var hugsuð sem leið til að láta nemendur kynnast betur. En það er nú bara þannig að það er EKKI auðveldara að tala saman í gönguferð í bráluðu veðri í 1200-1800 metrum yfir sjávarmáli. Þá er fólk meira að reyna að anda nokkurn vegin eðlilega. Það var mígandi rigning og slagviðri meiri hluta ferðarinnar. Nú eru ca. 90% nemenda með kvef eða aðrar veikir. Þ.á.m. ég. En nú hefst fyrsta eðlilega skólavikan á morgun, og mikið hlakka ég til. Loksins kemst einhver rútína á hlutina hér á bæ. Ekkert rugl.