Friday, December 18, 2009

Fleiri gagnlegar upplýsingar

Ætla að koma með aðeins fleiri upplýsingar varðandi breytingar á Héraði.

-Apótekið er flutt niðrí Kaupfélag. Gamla apótekinu hefur verið breytt í kaþólskt bænahús, og þar á efri hæðinni búa víst tvær nunnur.

-Skattstofan er til sölu. Á góðu verði, samkvæmt áreiðanlegustu heimildum (Dagskránni). Ekki oft sem hægt er að kaupa skattstofu á góðu verði. Ný skattstofa ku vera til húsa á leið innað mjólkurstöð (á svipuðum slóðum og ljósabúðin var).

-Í nýjustu Dagskránni sá ég ekki betur en Kaupfélagsskrifstofurnar væru líka til sölu. Örvæntið eigi, Kaupfélagið er enn á sínum stað (þó það heiti eitthvað annað), með nýtilkomnu apóteki innaborðs.

-Í þessari sömu Dagskrá sýndist mér líka að flytja ætti tjaldstæðið. Veit ekki hvurt, enda skiptir það engu máli á þessum árstíma. Það er örugglega lokað hvar sem það er staðsett.

Eitt er alltaf mikilvægast þegar dvalið er á Héraði:
Að lesa Dagskránna.
Það hefur ekki breyst.