Tuesday, December 15, 2009

Sorp

Þá er ég komin á Austurlandið eftir viðburðaríkar vikur í höfuðborginni.

Austurlandið er fínt, en hér koma mikilvæg skilaboð til þeirra sem hyggjast heimsækja Egilsstaðaborg á næstunni:

Kynnið ykkur sorpflokkunarkerfi bæjarins áður en haldið er af stað. Ég kom hingað í gær og fékk í hendurnar rúmlega tuttugu síðna bækling um flokkkun sorps. Og komst að því að það er engan vegin nóg. Hef allavega hugsað mig nokkuð oft um áður en ég hendi nokkrum sköpuðum hlut í ruslið. Og oftar en ekki hefur bæklingurinn ekki getað hjálpað mér.

Hér koma smá upplýsingar um flokkunarkerfið.
Það eru í gangi 3 ruslatunnur:
-Brún tunna fyrir lífrænan úrgang.
Sú tunna er nánast eingöngu fyrir matarleifar. Einfalt. Allt rusl sem fer í þá tunnu á að fara í sérstaka lífræna poka. Það má líka setja tepoka í þessa tunnu. En ég hef ekki getað fundið út hvort það megi setja bréfið utan af tepokanum með...
-Græn tunna fyrir endurvinnanlegan úrgang.
Hér vandast málið. Pappír fer í þessa tunnu. Sumur pappír á að fara í glæran poka, en annar pappír ver beint í tunnuna. Hér má líka setja ýmsar umbúðir, en það þarf að passa að þrífa þær vel. Matarleifar, hreinsiefni og annað innan í umbúðum má alls ekki fylgja með í tunnuna. Þetta þýðir því uppvask á ýmsu rusli. Lok af glerkrukkum mega fara í tunnuna, en ekki krukkan sjálf. Hún fer í gráu.
-Grá tunna fyrir allt annað.
Fyrir allt venjulegt rusl (hvað sem það nú er).

Fékk kvef við komuna hingað og veit ekkert hvar má henda snýtubréfunum.
Möguleiki 1: Í grænu tunnuna með öðrum pappír. En á þetta þá að fara í poka í tunnuna eða ekki?
Möguleiki 2: Í brúnu tunnuna. Hor er örugglega lífrænn úrgangur.
Möguleiki 3: Í gráu tunnuna.

Er að hugsa um að fá mér vasaklúta. Þetta eru alltof mikil heilabrot þegar maður er með kvef.