Saturday, October 17, 2009

Ferðalok og heimkoma

Eftir Ammríku var hugmyndin að skella sér til Vestmannaeyja á lúðramót. Af því varð ekkert vegna veðurs. Herjólfur fór ekki til Eyja í næstum 2 sólarhringa, og voru því í einangrun einmitt á því tímabili sem ætlunin var að flytja hátt í þúsund lúðramanns til eyja. Var auðvitað arfafúl út í þetta vitlausa veður. Allt slagverkið og stóru hljóðfærin fengu hins vegar að fara til eyja, og koma til baka, ónotuð.
Í stað eyjaferðar gat ég gert smá gagn og passað tvö smábörn. Það gerði ég alein í heila 5 klukkutíma, og enginn fór að grenja að neinu ráði. Þetta verður að teljast ótrúlegur árangur. Skemmti mér ákaflega vel við að lita og horfa á múmínálfana.

Nú er ég komin heim til mín og farin að mæta í skólann. Kannske ekki seinna vænna. Búin að mæta í nokkra tíma og sýnist ég ekkert hafa misst af neitt miklu, en hins vegar misskilið innihald sumra faganna.
Mætti t.d. í skólann eldsnemma á föstudagsmorguninn vitandi að ég ætti að gera eitthvað með dönsurum. Í einfeldni minni hélt ég að dansararnir ættu að dansa eitthvað og tónlistarfólkið ætti að finna/búa til tónlist í samvinnu við þá. Í ljós kom að allir áttu að hreyfa sig eitthvað.
Dansararnir voru þarna semsagt aðallega til að láta tónlistarhlussurnar hreyfa sig. Ég get nú ekki kallað hreyfingu dagsins dans, en gaman var það. Á einum tímapunkti brutust út hópslagsmál upp á stólum. Það endaði á því að tónsmíðaleiðbeinandi datt á rassinn niður á gólf. Dansara varð þá að orði: "Þú verður að passa dreyfingu líkamsþyngdarinnar".
Ég myndi nú segja að þumalputtareglan væri sú að það er hættulegt að slást uppá stól. Og örugglega bannað. En greinilega ekki ef maður er dansari.