Wednesday, September 19, 2007

Lúður

Alveg síðan ég flutti hingað í höfuðborg lúðrasveitanna hef ég ætlað mér að spila með einni slíkri. Það hefur þó tafist um rúmlega ár af ýmsum orsökum. Í gær mætti ég loksins á mína fyrstu lúðraæfingu. Fínasta lúðrasveit alveg hreint, sem átti við saxófónleikaraskort að stríða. Spilar erfið lög og allt. Fyrstu tónleikarnir mínir með þessari sveit eru í kvöld. Það fékk ég að vita á æfingunni í gær. Reikna nú ekki með að brillera á þessum tónleikum, en mun gera mitt besta. Æfði mig á lúðurinn í dag og alles.

Á göngu minni í stigagangi skólans í dag, með lúðurinn mér um öxl, mætti ég ókunnri konu sem gaf sig á tal við mig. Samtalið var svona:

Kona: Ert þú Ida?
Ég: Nei.
Kona: Ertu að læra á saxófón hérna.
Ég: Nei, tónsmíðar.
Kona: En ertu til í smá afleysingakennslu á lúður?

Ég afþakkaði þetta atvinnutilboð. En það er semsagt nóg að vera lúðurtöskuberi til að fá slík tilboð. Þá vitiði það. Ef þið eruð atvinnulaus í höfuðborg lúðrasveitanna, þá er nóg að láta sjá sig á almannafæri með lúðurtösku. Þá fær maður vinnu.