Þriðjudagar eru skóladagar
nú í byrjun skólaárs allavega. Stundaskrármanninum tókst að koma næstum öllum fögunum fyrir á einum degi. Það er eiginlega með ólíkindum. Verða reyndar dáldið strembnir dagar og eiginlega engar pásur, en á móti kemur að það er frí nánast alla aðra daga. Bara smá skóli á mánudögum og fimmtudögum. Þannig að nú er eiginlega komið helgarfrí (fyrir utan þennan eina tíma á fimmtudaginn, og heimaverkefnin auðvitað). En þetta verður nú ekki svona alltaf, það týnast inn fleiri kúrsar eftir því sem líður á önnina, og eftir jól verður þetta ansi þétt sýnist mér. Eins gott að nota þá haustönnina í að tónsmíða eitthvað (eða fullt).
Mætti í tíma í fjórum mismunandi fögum í dag, og hitti jafnmarga nýja kennara. Reyndar á ég að vera með sama píanókennara og í fyrra, en hann er í veikindaleyfi greyið (einsog nánast allan fyrravetur, held hann hafi mætt þrisvar eða fjórum sinnum allan veturinn). Konan sem leysir hann af virðist vera kjarnorkukvenmaður, komin af léttasta skeiði. Hún lítur ekki út fyrir að geta orðið veik, sem er gott. Aðrir kennarar eru bara venjulegir, en örugglega ágætir samt sem áður. Get ekki sagt að einbeitingin hafi verið upp á sitt besta þennan fyrsta langa skóladag. Held samt að ég hafi náð öllum mikilvægum upplýsingum. Eins gott. Annars gæti ég ekkert gert öll heimaverkefnin, sem eru mörg og skrítin.
En nú er ég þreytt. Það er erfitt að þurfa allt í einu að gera eitthvað eftir að hafa gert ekkert í rúma viku.
<< Home