Gærdagurinn
var góður.
Byrjaði á göngutúr um skólann til að skoða hljóðaverkefnin. Það var mjög gaman. Mitt verkefni tókst vonum framar. Hafði áhyggjur af því að einhverjir yrðu móðgaðir og kennarinn yrði brjálaður og fyndist þetta ömurlegt (mig dreymdi það sko nóttina áður). En kennarinn varð himinlifandi og fannst þetta æði, og það móðgaðist enginn. Held ég láti ekkert mikið uppi um þetta verkefni. Gæti nefnilega kannski notað það aftur seinna. Það sem ég föndraði var ekkert merkilegt (er ekki góð í að föndra). Bara nokkrar litlar skilaboðabækur sem ég skrifaði í og litaði. Voða sætt.
Á þessum göngutúr sá ég nokkra hluti í skólanum sem ég hef ekki séð áður. T.d. einn stigagang sem ég vissi ekki að væri til (þá eru þeir orðnir fimm) og lyftan í nýju byggingunni rúmar 33 manneskjur. Engin smá lyfta.
Hin stelpan í hópnum var með sitt verkefni í kvennasturtuklefanum (og, já, það eru sturtur, gufuböð og leikfimisalur í skólanum. Engin sundlaug. Glatað). Það var fyndið. Sérstaklega þegar einhver vesalings stúlka álpaðist þar inn á vandræðalegu augnabliki og sá röð af strákum sitjandi á bekk í búningsklefanum, og hálfnakta stúlku (í engu nema handklæði) í dyrunum að sturtuklefanum. Hún var fljót að forða sér (sennilega með særða blygðunarkennd).
Fleiri verkefni vöktu einnig mikla kátínu. Semsagt skemmtileg morgunstund.
Í gærkveld var svo eitt lag eftir mig spilað á tónleikum. Það var auðvitað frábært, og haldið uppá það eftirá á hefðbundinn hátt. Með mikilli öldrykkju og spjalli við skemmtilegt fólk.
Í dag hitt ég Íslending í skólanum.
Suma daga er maður heppnari en aðra.
<< Home