Saturday, April 14, 2007

Enn og aftur

komin í Útlandið.

Afar skemmtilegt páskafrí. Hyggst birta helstu atriði þess á næstu dögum. Sennilega á morgun. En hér kemur sagan af ferðalaginu til baka í Útlandið.

Komst á flugvöllinn með aðstoð Sóleyjar og sá fram á hina hefðbundnu tveggja tíma bið. Fylgdist af áhuga með einhverju liði sem var að setja upp svið og hljóðkerfi í Leifsstöð. Greinilega partý þar í kvöld.

Og svo var kallað útí vél. Klukkutíma áður en vélin átti að fara. Mér þótti þetta undarlegt, ekki síst þar sem það er ekki einu sinni venjan að það sé kallað útí vél lengur. Ég rölti að hliðinu. Þegar ég fór að nálgast hliðið sá ég að þar var enginn nema konan sem tók við miðanum. Hún kallaði á mig: “Ert þú Bára?” Ég játti því og svo sagði hún mér að drífa mig. Ég gerði það en hváði og sagði: “En er flugið ekki klukkan .... ó ...” og fattaði eigin heimsku.

Ég flýg nefnilega ansi oft á milli. Iðulega með SAS og það flug er alltaf á sama tíma. Það sem ég hafði ekki athugað er að tíminn er ekki alltaf sá sami. Flugið er semsagt alltaf á sama tíma miðað við Útlönd. Og nú er sumartími í Útlöndum. Flugið var semsagt klukkutíma fyrr en venjulega að íslenskum tíma. Og einhverra hluta vegna tengdi heilinn minn ekki að 17:50 þýddi tíu mínútur í sex, en ekki tíu mínútur í sjö.

Af þessum sökum seinkaði fluginu um 10 til 15 mínútur. Ég vil hér með biðja alla farþega á flugleiðinni Keflavík-Osló í flugi SK4788 fyrr í kvöld afsökunar á þessum leiðu mistökum. Lofa að lesa flugtímasetninguna betur næst ... og skilja hana.