Tuesday, April 17, 2007

Á undanhaldi

Jájájá. Þessi leti virðist að mestu hafa verið afleyðing smá svefnleysis. Er allavega mun hressari í dag og búin að afreka eitt og annað smávegis.

Góðverk dagsins:
Keypti kaffi fyrir píanókennarann minn og færði honum í kennslustofuna sína. Hann er nefnilega svo fatlaður greyið að hann á erfitt með það. Eða sko, hann getur alveg keypt kaffið, en kemst ekki með það til baka. Hann er sko ekki með glasahaldara á hjólastólnum sínum.

Hiss dagsins:
Fór á bókasafnið í skólanum, sem ég geri nánast daglega. Í þetta skipti þurfti ég að fá lánaðar nokkrar nótnabækur. Þegar bókasafnskonan tók við kortinu mínu sagði hún: “Þá veit ég hver þú ert.” Hún er semsagt Íslendingur. Hinn Íslendingurinn sem starfar/nemur innan veggja skólans (fyrir utan mig). Frekar asnalegt að hafa verið þarna næstum heilan vetur og ekki fundið hinn Íslendinginn fyrr en nú.

Illkvittnisleg gleði dagsins:
Hitti bekkjarfélaga minn sem er álíka lélegur í rafdótinu og ég. Hann hafði eitt bróðurparti morgunsins í að reyna að gera verkefnið sem ég hafði ákveðið að fresta um sinn. Honum tókst ekki að gera þetta þrátt fyrir mjög nákvæmar leiðbeiningar á heimasíðu okkar ágæta kennara. Ætlum að biðja um nánari útlistanir eftir næsta tíma.
Ég verð þá ekki sú eina sem ekki hefur klárað verkefnið á tilsettum tíma. Það er fínt. (Verð þó sennilega sú eina sem reyndi það ekki einu sinni).

Jeij dagsins:
Fékk einkunina úr skriflega hluta tónheyrnarprófsins. Féll ekki (þó einkuninn hafi ekki verið upp á marga fiska). Jeij. Og hef möguleika á að hækka einkunina í munnlega hlutanum. Bara spurning um að nenna að æfa sig.

Úrið mitt kláraði batteríið sitt í dag. Í dag er klukkan því tuttugu mínútur yfir fjögur. Fínn tími.