Stórhreingerning
gærdagsins gekk vonum framar. Kláraði að þrífa slotið og ganga frá pappírum (sem voru farnir að þekja meira eða minna öll borðpláss heimilisins). Ekkert smá gaman að vera búin að því.
Skólinn er alveg að klárast. Reyndar átti allri kennslu að vera lokið á miðvikudaginn var, en þar sem ákveðnir kennarar vilja endilega bæta upp tapaða tíma er eitthvað smávegis eftir helgina líka. Var í síðasta tónsmíðatíma vetrarins í dag. Stuð. Þá er bara eftir að klára eitt verkefni, mæta í einn tíma eftir helgina og svo þetta blessaða próf.
Aðalmálið fram að brottför verður þó sennilegast að æfa sig á lúðurinn. Ætla að spila á tónleikum með LR daginn eftir heimkomu (næ einni æfingu, kvöldið sem ég kem). Málið er bara að ég hef ekki aðgang að réttum lúðri í Útlandinu, og það er rúmlega eitt ár síðan ég hef snert á slíku hljóðfæri. Æfi mig á öðruvísi lúður og vona að það komi hljóð úr rétta lúðrinum á þessari einu æfingu sem ég næ með bandinu. En, hey ... lúður er bara lúður. Maður blæs í munnstykkið og ýtir á takkana, og þá kemur tónlistin út....
Hefði nú verið gaman að geta verið í æfingabúðum með hinum lúðunum um helgina í staðin fyrir að vera í Útlandinu (þar sem er ekki einu sinni gott veður!) og æfa sig einn á vitlausan lúður. En ég bið allavega að heilsa í Sveitina.
Í dag á Sivin bróðir afmæli. Hann er orðinn tuttuguogsex ára.
Til hamingju með daginn Sivin.
5 dagar í brottför.
<< Home