Kunnugir útlendingar
Áður en ég flutti til útlanda taldi ég mig ekki þekkja marga erlenda aðila, en síðan ég flutti hef ég rekið mig á að það var ekki alls kostar rétt munað. Það gerist nefnilega reglulega að ég hitti fólk sem ég kynntist í gamla daga (áður en ég fluttist erlendis). Síðustu tvo daga hef ég hitt tvo slíka einstaklinga, sem báðir eru af sænskum uppruna.
Annars vegar saxófónleikara sem tekur þátt í skandinavískum saxófóndögum sem haldnir eru í skólanum mínum þessa dagana. Þeim dreng kynntist ég í norrænni blásarasveit, þar sem hann spilaði jafnan á baritónsaxófóninn (allavega öll þrjú árin sem ég tók þátt í bandinu). Nú stundar hann nám í Danmörku.
Áðan hitti ég svo stúlku sem ég hef hvorki heyrt né séð síðan aldamótaveturinn síðastliðinn. Þann vetur stunduðum við báðar lúðurnám við sama skóla, hjá sama kennara (hmm ... ókei, það er kannski ekki hægt að kalla fagott lúður) og bjuggum báðar á Höfða. Hún bjó í næsta herbergi við mig þennan veturinn og gegndi hlutverki húsprests. Ótrúlega gaman að hitta hana aftur. Hlógum dáldið að því að hvorug okkar hefur breyst neitt á þessum árum (hún er samt orðin alveg þrjátíogeitthvað). Hún lauk meistaranámi í fagottleik frá mínum núverandi skóla eftir einleikaraprófið sitt úr Tónó og áður en ég hóf mitt nám hér á bæ, og er nú orðin virtur fagottleikari í sínu heimalandi.
Í dag barði ég einnig augum mongólskan kór í þjóðbúningum (afar skrautlegt) og heyrði þau syngja nokkur mongólsk dægurleg. Ég þekkti þau ekki (hvorki lögin né kórmeðlimi).
Einnig sat ég fyrirlestur hjá kínverskum prófessor. Á kínversku. Ég þekkti hvorki hann né tungumálið.
<< Home