Monday, September 07, 2009

Í Montana

Þá er ferðalagið hafið fyrir alvöru. Það hófst á laugardaginn eftir afbragðs pönnukökuboð. Fannst reyndar pínu skrítið að bjóða upp á vodka með morgunmatnum, en hei, þetta eru Útlönd.
Spiluðum í Spokane á laugardagskvöldið og gistum hjá eiganda tónleikastaðarins, sem bauð uppá vöfflur með hnetusmjöri, sírópi og beikoni í morgunmat. Er farin að skilja af hverju Útlendingar eru feitir.
Í gær keyrðum við yfir smá bút af Idaho, töpuðum við það einum klukkutíma, og svo yfir hálft Montana-fylki. Það er stórt. Þessa dagana dveljum við á RISA sveitasetri rétt fyrir utan bæ sem heitir Bozeman.
Á morgun er förinni heitið til Billings, þar sem næstu tónleikar fara fram.

Á ferðalaginu eru nú 5 manneskjur og 2 bílar.
Á morgun bætist við 1 manneskja og enginn bíll.

Bílarnir eru:
-Hvíti sendiferðabíllinn sem geymir allt dótið og 2 manneskjur.
-Blái framsóknarbíllinn sem geymir næstum ekkert dót og 3 manneskjur, 4 frá og með morgundeginum. Bíllinn er kallaður framsóknarbíll af því að það stendur xB á honum.

Manneskjurnar eru:
-Bart, söngvari og gítarleikari og aðalkallinn í bandinu.
-Katie, söngkona
-Rich, orgel- og gítarleikari
-Kópur, trommu- og þríhornleikari
-Og ég, bassa- og túbuleikari.
Sú sem bætist við á morgun mun sjá um geisladiska- og bolasölu.