Wednesday, January 27, 2010

Í Finnlandi

er kalt.

Einmitt þegar hitastigið í Norge var orðið vel þolanlegt (einungis nokkrar gráður í mínus), var maður sendur í 25 stiga frostið hér í Lahti. Þegar horið frýs hratt og örugglega í nösunum á manni lengst uppí nefinu, þá eru greinilega meira en 20 gráður í mínus. Og þannig er það búið að vera síðan ég kom hingað á laugardaginn. Samkvæmt spám er gert ráð fyrir að hitinn fari upp fyrir -10 um helgina. Það verður nú hlýtt og notalegt. Það er mun meiri munur á -20 og -10 en ég hélt.
Þetta voru helstu fréttir af veðri.

Annars er það helst að frétta að það er fáránlega mikið að gera á þessu námskeiði sem ég var send á hérna í Finnlandinu. Erum í skólanum frá 10-18 alla þá daga sem hér er dvalið (förum til baka á miðvikudaginn), og þar fyrir utan eru einhver verkefni sem þarf að gera og fólk sem þarf að tala við. Ekkert djók sko. Og þetta er námskeið í viðskiptum... eða eitthvað þannig. Þetta fer í meginatriðum þannig fram að maður var í upphafi settur í hóp með 6 ókunnugum, og á einni viku eigum við að búa til vöru eða þjónustu, sem við eigum svo að selja einhverjum alvöru aðila (ekki tilbúnum viðskiptavini). Hvernig þetta kemur mínu eiginlega námi við er óljóst, en ég ákvað að líta á þetta sem ágætis tilbreytingu (jákvæðnin í farteskinu) og geri nú viðskipta- og markaðsáætlanir í samvinnu við fólk sem hefur vit á svoleiðis hlutum.
Norski hópurinn var með tónleika í gær. Þar var m.a. frumflutt 1 eftir mig. Gekk rosa vel. Afskaplega flinkir hljóðfæraleikarar og söngvarar með í för.

Hér er semsagt ágætlega gaman, en alltof kalt og alltof mikið að gera.

Er þess vegna ekki búin að drekka neitt vodka (en soldið af bjór reyndar) og ekki búin að fara í neitt sána (en bún að komast að því að í Finnlandi eru 2.000.000 sánu á þessa 5.000.000 manns sem hér búa).