Friday, September 23, 2005

Stuð í útlöndum

Jebb. Það er allt að gerast

Í gær:
Átti ein sambýliskona afmæli. Til hamingju með það Viviann. Í tilefni dagsins var haldið í bæinn. Þar var etin flatbaka og ferðinni svo fram haldið á eitt af öldurhúsum bæjarins. Þar fór afmælisbarnið hamförum og tók bakföll af hlátri. Í bókstaflegri merkingu. Datt aftur fyrir sig af barstól. Hún fékk ansi myndarlega kúlu á hnakkann en hlaut að öllum líkindum ekki varanlegan skaða af. Það getur verið hættulegt að hlæja of mikið.
Komst líka að því að ponsulitla stelpan í Húsi E getur drukkið reiðinnar býsn af bjór. Getur sennilega drukkið allflesta undir borðið og vel það.
Það er ýmislegt sem skemmtistaðir í Noregi hafa fram yfir þá íslensku. Norðmenn fatta að það er ekki nauðsynlegt að hafa tónlist það hátt stillta að gestir staðarins hljóti varanlegan heyrnarskaða af. Og hér er bannað að reykja á slíkum stöðum sem er BARA frábært.
Á leiðinni heim í Hús E ákvað útlendingurinn í húsinu að láta reyna á klifurhæfni sína sem hún þjálfaði upp á eftirminnilegan hátt í Svíþjóð fyrr í sumar. Það tókst ekki mjög vel. Komst þó upp u.þ.b. hálfan ljósastaur og tókst í leiðinni að skera mig á fjórum fingrum hægri handar. Hver skilur eftir beitt dót á ljósastaur? Ég giska á Jón skólastjóra. Hann býr í næsta húsi við ljósastaurinn og hefur örugglega skilið eitthvað beitt eftir síðast þegar hann klifraði þarna upp svo einhverjir vesalings nemendur myndu skera sig. En hægri hendin er allavega ansi skrautleg þessa stundina, með fjóra Línu Langsokk plástra.

Í dag:
Sótti um skattkort. Fæ það sennilega í næstu viku.

Semsagt. Rosalegt stuð á hverjum degi. Alltaf gaman í útlöndum.