Monday, May 21, 2007

Óþarfa áhyggjur

Gera oft vart við sig rétt áður en haldið er af stað í ferðalög. Sérstaklega ef um lengri tíma ferðalag er að ræða. Sem dæmi um slíkar áhyggjur eru:

- Maður hefði átt að gera e-ð áður en lagt var af stað, en gerði svo ekki.
- Stundvísi flugs (sérstaklega ef maður er á leiðinni á áríðandi fund/æfingu)
- Að maður sé að gleyma einhverju MJÖG mikilvægu (flugmiðanum, vegabréfinu eða að slökkva á eldavélinni).

Þetta er með öllu fáránlegt. Slíkar áhyggjur eru óþarfar og hreinlega mannskemmandi. Það deyr enginn þó maður gleymi einhverju (nema ef maður gleymir eldavélinni. Þá gæti reyndar einhver dáið), eða geri ekki alveg allt sem hefði kannski verið sniðugt að drífa í áður en haldið var af stað.
Þannig að ég ætla að hætta að hafa áhyggjur NÚNA.

Það sem ég hef hins vegar skuggalega litlar áhyggjur af er prófið á miðvikudagsmorguninn (nema ef því seinkar úr hófi fram, þá hef ég stórar áhyggjur. Þarf sko að mæta í flug). Þar fæ ég að hella úr skálum tónheyrnarkunnáttu minnar og syngja nokkur vel valin lög fyrir tvær indælar konur. Hefði verið gaman að taka nokkur íslensk ættjarðarlög, en þær vilja víst frekar heyra lög úr Modus novus. Skrítinn tónlistarsmekkur það.

Á morgun er pökkunardagur. Þá hyggst ég koma með nákvæmar leiðbeiningar um hvernig pakka skal niður fyrir lengri ferðir, þannig að farangur fari ekki yfir tuttugu kílóin.
Bíðið spennt.

2 dagar í brottför