Hátíðin sem allir hafa beðið eftir
Þessa dagana fer hin árlega “stórskemmtilega” nútímatónlistarhátíð Ultima fram hér í borg. Þetta er þó skárra en í fyrra því nú er ekki skyldumæting fyrir tónsmíðanema á tónleika. Það er þó ætlast til að við látum sjá okkur af og til. Tók mig til í gær og mætti á þrenna tónleika í röð, sem tóku alls um 4 tíma. Frábær árangur það.
Fyrstu tónleikarnir báru yfirskriftina “Ný verk fyrir kvarttónamarimbu.” Marimba er jú skemmtilegt hjóðfæri, en persónulega finnst mér alveg nóg að hafa 12 tóna í áttund. Hljóðfærið sem slíkt var þó skemmtilegt, en verkin auðvitað hundleiðinleg. Þau voru allavega stutt miðað við margt annað (5 verk á klukkutíma og kortéri) og bjargaði það þeim tónleikum.
Næstu tónleikar voru ömurlegir. 2 verk á tæpum tveimur tímum. Ekki sérlega góður árangur það. Annað af þessum verkum var reyndar eftir Beethoven. Það var fínt. Hitt var ööömurlegt, og ég fattaði eitt nýtt. Ef það stendur í tónleikaskrá um tónskáld “... hefur opnað glugga að nýjum hljóðheimi ....” eða eitthvað slíkt, er verkið (og sennilega öll önnur verk eftir sama tónskáld) alveg hundleiðinlegt og laaangt. Þau tónskáld sem fást við að opna einhverja ósýnilega glugga (sem hefðu alveg mátt vera lokaðir áfram) hafa greinilega ekki neitt tímaskyn. Í þessu verki voru hljóðfærin (strengjakvartett) ekki notuð til að spila tóna, heldur framkalla hljóð (misþyrming á þessum fínu hljóðfærum). Það góða við þessa tónleika var, að síðustu tónleikar kvöldsins urðu alger hátíð í samanburðinum.
Það voru impróviseringartónleikarnir. 8 eða 9 verk á klukktíma = sigurvegarar kvöldsins. Ef verk er 5-8 mínútur, gerir ekkert til þó það sé leiðinlegt. Það tekur allavega fljótt af. Stutt = gott.
En hvenær ætla tónskáld nú að hætta þessum “hljóðheima” pælingum og skrifa almennileg lög? Það er alveg kominn tími á það. 20. öldin er búin. Gæti orðið til þess að það mæti einhverjir aðrir á tónleika en önnur tónskáld.
Niðurstaða gærkvöldsins:
Að “opna glugga að nýjum hljóðheimum” er EKKI málið og tónskáld kunna ekki á klukku.
<< Home