Friday, September 11, 2009

Minneapolis

Þá er það Minneapolis í kvöld.

Í gærkvöldi vorum við í Oakes, ponsulitlum bæ í Norður-Dakota. Það var magnað. Flestir bæjarbúar mættir í golfskálann, hvar við héldum uppi stuði fram eftir kvöldi, og svo hélt stuðið áfram fram eftir nóttu. Þetta var eiginlega hálfgert ættarmót, þar sem tveir hljómsveitarmeðlima eru ættaðir frá þessum litla bæ. Þarna búa bændur þannig að það var borðað kjöt, beint af kúnni, og grænmetið var tínt útí garði. Í Ammríku er mikið af öllu. Fólk býr í risahúsum og boraðar stóran mat. Samt hef ég ekki séð mikið af mjög feitu fólki... ennþá, en fólk virðist fitna eftir því sem austar dregur.

Keyrðum 5 tíma í dag og 9 tíma í gær þannig að við höfum lagt ansi langar vegalengdir að baki. Eigum eftir að keyra um 16.000 kílómetra samkvæmt nýjustu upplýsingum.
Það er gaman að keyra eftir löngum beinum vegi.

Mælieiningar í þessu landi eru lítt skiljanlegar. Mílur og pund get ég reiknað út, en farenheit-gráður eru mér illskiljanlegar. Í dag voru rúmlega 80 gráður á farenheit-kvarða utandyra. Það var bara ansi hlýtt og notalegt. Og svo eru únsur og gallon. Það skil ég ekki heldur. Ég veit að Gallon er meira en únsa, en það er líka allt og sumt sem ég veit um þessar mælieiningar. Þannig að ef einhver hefur brennandi áhuga á að upplýsa mig um gráður á farenheit, únsur og gallon, þá er viðkomandi vinsamlegast beðinn um að skrifa það í athugasemdakerfið hér að neðan.

Kominn tími til að undirbúa sig undir gigg kvöldsins á viðeigandi hátt.
Fá sér bjór.