Sunday, March 07, 2010

Lausnin á æseif

Komin aftur til Noregs og búin að ná upp töpuðum svefni. Það er erfitt að vaka heila nótt. Þá verða tveir dagar að einum og það er eitthvað rangt við það.

Í gær voru kosningar. Ég kaus reyndar ekki neitt. Nennti ekki að kynna mér almennilega hvað var verið að kjósa um, og fólkið á götunni talaði um að betri samningar væru í vændum. En hver veit það?

Skil annars ekkert hvað fólk er að pælí þessu æseif-máli endalaust. Lausnin er einfaldari en allt. Við gerumst hluti af Noregi. Nánast allir þeir Norðmenn sem ég hef hitt, og hafa vakið máls á efnahagsástandi Íslands, hafa komið með þessa tillögu. Nokkrum finnst þó eðlilegra að Noregur verði hluti af Íslandi, þar sem allir "kúlustu" Norsararnir hafi farið þangað á sínum tíma.

Ef einhver efast um að Noregur ráði við að greiða skuldir Íslendinga, þá heyrði ég eftirfarandi staðreyndir í fréttum hérlendis fyrir helgi:
Hagnaður Noregs af olíusjóðunum árið 2009 voru um 1.000.000.000 norskra króna (ca. 22.000.000.000 íslenskra). Á DAG!
Og þetta er bara hagnaðurinn. Enginn veit hvursu stórir þessir olíusjóðir eru, en það eru örugglega nokkuð mörg núll í því. Noregur gæti semsagt borgað allar skuldir Íslendinga með ca. eins mánaðar hagnaði olíusjóðanna.

Lausnin er því einföld. Verum með í Noregi. Eða fáum Noreg til að vera með í Íslandi. Þeir eru örugglega til í annað hvort. Þá þyrfti enginn að pæla meir í æseif. En hvað myndu Íslendingar þá tala um? Það hefur varla verið talað um annað svo lengi sem elstu menn muna... Kannski vilja Íslendingar ekki finna neina lausn. Þá hafa þeir ekkert að tala um lengur.