Með öndina í hálsinum
Um helgina kom það fram í sjónvarpsfréttum hér ytra að Íslendingar biðu með öndina í hálsinum eftir yfirvofandi Kötlugosi. Samkvæmt mínum áreiðanlegu heimildum (feisbúkk) bar nú ekki mikið á þeirri önd. Fólk virtist hins vegar keppast um að komast sem næst eldgosinu á Fimmvörðuhálsi.
Undarlegt þegar fjölmiðlar greina frá yfirvofandi hættuástandi í öðrum löndum, en minnast varla á hættuástand í eigin landi.
Hér í borg hefur verið stórhættulegt að vera á ferli nánast allan marsmánuð. Ástæðan er snjó- og klakaflóðahætta af húsþökum. Nokkrum sinnum varð ég vitni af slíkum flóðum, oft á fjölförnum gangstéttum, og ávallt var bara heppni að enginn varð undir.
Nú er snjóflóðahættuástand liðið hjá, en ég verð að viðurkenna að öndin var ekkert langt frá hálsinum þennan mánuð sem hættuástand varði.
Vorið nálgast óðfluga.
Opinber dagsetning vor-upphafs í Útlöndum er 1. apríl.
<< Home