Tuesday, December 20, 2005

Fréttir af Héraði

Hér í foreldrahúsum er næstum ekkert eins og það var síðast þegar ég kom hingað. Búið er að skipta um eldhús, þannig að maður þarf að leyta í öllum skápum og skúffum til að finna það sem maður leytar að. Er búin að finna uppþvottavél. Slík maskína hefur aldrei fyrr verið brúkuð á heimili þessu. Önnur herbergi eru meira eða minna full af húsgögnum, þar sem híbýli formóðurinnar voru tæmd fyrr í haust. Ég hef ekki enn lagt í að kíkja í bílskúrinn, en þar er víst mjög skrautlegt um að litast. Ekkert jólatré verður keypt á þessu heimili sökum plássleysis, og er það vel.

Annars virðist ekkert mikið fleira hafa breyst í plássinu. Nema náttúrulega komið eitt nýtt hverfi og svo á víst fjöldkylda íslenska bachelorsins heima í næsta húsi. Ég hef blessunarlega sloppið við að fylgjast með þeim þáttum, og mun leggja mig alla fram til að vita sem minnst um framgang mála á þeim bæ. Vil helst sleppa við kjánahrollinn.