Jólin koma bráðum
og íbúar Húss E ætla sko ekki að láta þau framhjá sér fara. Einn íbúanna ákvað að kaupa súkkulaðidagatöl á línuna þannig að nú hanga 8 dagatöl í beinni röð á ganginum. Nöfnin okkar standa fyrir ofan dagatölin og það er sko fylgst rækilega með því að allir muni eftir að opna gluggann sinn á réttum degi.
Hef tekið það hlutverk að mér að vera “uppalandi” hússins (svona þegar ég er ekki of upptekin af að leika mér). Er búin að skamma stelpurnar í húsinu tvisvar í vikunni. Í gær þegar þær voru að kasta snjóboltum í gluggana (hótaði að koma út og berja þær í klessu ef þær hættu þessu ekki). Þær hættu og komu inn. Og á laugardagskvöldið þegar þær komu heim klukkan 1 um nótt og höfðu hátt. Næsti liður í uppalendahlutverkinu er að fara í vínbúðina og kaupa bús fyrir börnin. Þau eru nefnilega ekki nógu gömul greyin. Og það er stórt jólapartý á laugardagskvöldið.
Í dag spilaði lúð(r)asveitin Ostalagið. Það var .......... ágætt. Get ekki sagt að ég finni fyrir gríðarlegri löngun til að heyra þetta lag aftur, en nú á tónlistarvalnefnd sveitarinnar eftir að ákveða hvað á að taka til æfinga eftir jól. Erum búin að lesa í gegnum helling af dóti. Margt ansi hreint skemmtilegt.
Er allt í einu kominn með nokkuð stöðugt internetsamband í Hús E. Hef ekki hugmynd hvaðan það kemur. Þetta hefur þær afleiðingar að tími hangs á netinu hefur stóraukist (á kostnað tónsmíða að sjálfsögðu). Veit ekki alveg hvað þetta er sniðugt fyrirkomulag. En ágætis tilbreyting.
<< Home