Tuesday, December 13, 2005

Eldhúsáhöld geta ráðist á fólk af minnsta tilefni

Það er nóg að gera í afleysingum í stórsveitinni þessa dagana. Eldhúsáhald réðist á tenórsaxófónstelpuna í síðustu viku og gataði á henni neðri vörina þannig að hún getur ekkert spilað fyrr en á næsta ári. Og baritónsaxófónstráknum tókst að brjóta í sér aðra framtönnina í partýinu á laugardaginn. Með flösku held ég. Ég leysi stelpuna af og einn slagverkskennarinn spilar á baritónsaxinn. Ég hefði alveg vilja taka baritóninn svona til tilbreytingar, en stelpan datt út fyrst þannig að ég var búin að spila hennar parta á æfingu. Bara að strákurinn hefði brotið þessa tönn fyrr. Þá hefði ég fengið hans pláss.

Í dag er lúsíudagurinn. Hef ekki hugmynd um hvað það er eiginlega. En það er einhver dagskrá í gangi í kvöld. Stofutónleikar held ég.

Annað kvöld eru djasstónleikarnir. Það verður spennandi eins og venjulega. Er reyndar búin að mæta á óvenju margar æfingar núna (2 og svo eina á morgun) en slagverkskallinn sem á að spila á barrann mætir bara á morgun.

Á fimmtudagskvöldið eru litlu jólin. Og það er bannað að fara á fyllerí eftir það vegna þess að á föstudaginn eru generalprufa og tæknirennsli fyrir jólatónleikana sem eru þá um kvöldið. Tæknirennsli er mjög undarlegt fyrirbrigði. Þá er rennt í gegnum tónleikana en enginn spilar neitt. Allir labba þangað sem þeir eiga að fara og svo aftur til baka og einhverjir misgáfulegir nemendur skólans raða stólum og svoleiðis eftir þörfum. Þetta tekur gjarnan óheyrilega langan tíma. Yfirleitt mun lengri tíma en tónleikarnir sjálfir eru. Það verður semsagt stuð á föstudaginn.

Þá um kvöldið (strax eftir tónleikana) gera flestir ráð fyrir að drífa sig heim. Nokkrar eftirlegukindur verða þó hér fram á laugardag. Ég er semsagt ein af þessum kindum ...........