Monday, August 21, 2006

Internet heima!

Nú er ég “loksins” komin með internet í híbýlum mínum hér í Oslo city. Er nú reyndar bara búin að vera hér í 4 daga, en búin að redda alveg hreint ótrúlega mörgum hlutum á þessum fáu dögum. Sérstaklega miðað við það að það var helgi þarna inná milli, og þá eru flestir “reddingarstaðir” (=opinberar stofnanir) lokaðir. Nenni nú eiginlega ekki að fara að telja upp einhverjar reddingar þannig að ég sleppi því.

Þessa vikuna er nýnemavika nr. 2 í skólanum og mér skilst að ég hafi ekki misst af miklu í fyrri vikunni. Mætti bara á föstudaginn og sá tvenna tónleika sem báðir innihéldu óþarflega mikið magn af misskemmtilegri nútímatónlist. Talaði við nokkra nemendur eftir tónleika. Þeim fannst ekki gaman. Hvað er eiginlega málið með nútímatónlist? Vona bara að ég fari ekki sjálf að búa til svona “lög” eftir x langan tíma í tónsmíðanámi.

Á föstudaginn áttum við litlu nemendurnir að hitta aðalkennarann okkar. Hann mætti reyndar ekki af því að hann hélt við ættum að hittast í einhverri annarri stofu (ok, lofar ekki góðu). Við hittum í staðinn 2 aðra tónsmíðakennara sem sögðu okkur ýmislegt gagnlegt um námið. Hljómaði allt mjög sannfærandi. Annar talaði reyndar bara dönsku (sem er tungumál sem er ekki hægt að skilja mjög vel), en þetta var örugglega allt mjög gáfulegt. Hann talaði meðal annars um mikilvægi þess að drekka bjór með flytjendum og tónskáldum eftir tónleika.

Og mikið er nú ótrúlega mikill munur að hafa internetið heima. Hvernig færi maður að án þess.