Saturday, May 27, 2006

Búin að kjósa

og gekk það stóráfallalaust fyrir sig. Heimsótti svo heilar tvær kosningaskrifstofur og fékk kaffi og kökur. Var spurð á annarri hvort ég væri að kjósa í fyrsta skipti. Ég kvað svo ekki vera. Þetta eru víst þriðju sveitarstjórnarkosningar sem ég tek þátt í sem kjósandi (fyrir utan allar hinar kosningarnar náttúrulega - alþingis- og forsetakosningar). Minnist þess þó ekki að hafa mætt á kjörstað áður til að kjósa. Alltaf verið á einhverju flakki og kosið utan kjörfundar. Það var óneitanlega stemming yfir því að mæta á kjörstað. Þar er maður spurður að heimilisfangi. Sem betur fór hafði faðir minn tilkynnt mér það áður en á kjörstað var haldið að ég væri heimilislaus samkvæmt kjörskrá, en ég væri númer 3 á þeim ágæta lista. Þetta voru afar gagnlegar upplýsingar. Og ég þurfti ekki að sýna skilríki. Það var kúl.

Að öðru leyti er ég að mestu búin að halda mig innandyra síðan ég kom í foreldrahús. Það virðist vera orðin regla fremur en undantekning að ég fæ einhverja pest þegar hingað kemur. Það verður að teljast frekar fúlt. Mömmu finnst það allavega hundleiðinlegt.