Monday, August 25, 2008

En núna?

Þá er ég komin aftur í Útlandið.
Ferðalagið gekk ákaflega vel, þrátt fyrir lítinn svefn síðustu tvo sólarhringana í heimalandinu. Notaði þessa tvo sólarhringa hins vegar mjög vel í ýmsar reddingar og skemmtanir.
Það var gaman.

Það vildi hins vegar svo illa til að flugið mitt til Útlandsins var á sunnudagsmorguninn, á nákvæmilega sama tíma og Handboltaleikurinn. Flugstjórinn var greinilega ekkert svakalega sáttur við að vera í vinnunni. Fyrir flugtak kom hann með þessar venjulegu tilkynningar og sagði að flugið væri á áætlun, en bætti svo við: "... en á degi sem þessum hefði ég nú alveg verið til í svona tveggja tíma seinkun...". Hann gerði þó það besta úr aðstæðum, og kom með tölur úr leiknum með reglulegu millibili, auk þess sem hann tíundaði helstu kosti og galla varnar- og sóknarleiks og markvörslu. Þetta varð auðvitað til þess að maður hélt sér vakandi þar til leiknum var lokið. Maður varð jú að fylgjast aðeins með fyrst maður hafði möguleika á því.

Hér ytra er nú aðalmálið að koma sér í skólagírinn. Ekki margt sem gerist svona fyrstu vikuna, en ég þarf að klára að finna mér valfög og kennara í þessari viku. Tókst að "segja upp" nýja tónsmíðakennaranum mínum áður en ég mætti á svæðið. Hann kom með eina slæma tillögu í fyrsta tölvupóstinum, og hann fékk sparkið í fyrsta svarinu. Varð pínu hrædd um að það væri bara tímaspursmál hvenær ég yrði rekin úr skólanum fyrir kjaftforheit, en það er ekkert að fara að gerast. Hitti helv... Danann og nýju barnapíuna hans í dag, og þeir voru bara hressir og lofuðu mér nýjum kennara innan skamms. Þar sem ég verð með tvo kennara þetta árið, þá er ég samt alveg með 1 (þennan sama og síðustu 2 árin), þannig að þetta er ekki alveg vonlaust.

Það var semsagt ráðin barnapía fyrir Danann. Sýnist það vera ágæt lausn, þar sem ekki er hægt að reka mann sem hefur verið ráðinn til 6 ára. Það var búin til ný yfirmannsstaða, yfir tónsmíðadeildinni og tveimur öðrum deildum. Virðist samt aðallega vera hugsað sem barnapíustaða fyrir Danann. Þeir ganga allavega saman um gangana og barnapían sér um að eiga samskipti við fólk. Afar gott fyrirkomulag, þar sem Daninn er ansi lélegur í mannlegum samskiptum, en barnapían er ákaflega kurteis og almennileg í alla staði. Gott mál.

Plan næstu daga:
-Reddingar
-Ná upp töpuðum svefni
-Vera úti (það er enn sumar hér)
-Annað