Monday, March 23, 2009

Er fólk fíbbl?

Í dag fór ég í búð og verslaði áfengi. Þegar kom að því að greiða fyrir vöruna var ég beðin um skilríki, sem er ekki í frásögur færandi þar sem það gerist oftar en ekki. Í þetta skipti var heldri maður fyrir aftan mig í röðinni. Honum þótti þetta athæfi greinilega grunsamlegt og fram fór eftirfarandi samtal:

Heldri maður: Hvað þarf maður að vera gamall til að versla áfengi?
Afgreiðslumaður: Átján ára... en hún lítur bara svona út, hún er sko alveg um þrítugt.
Heldri maður: Nú? Ég hélt hún væri svona fjórtán.

... og hversu oft hefur fólk ekki sagt við mann að þegar maður verði kominn á vissan aldur líti maður á það sem hrós að fólk telji mann yngri en maður er í raun og veru.

Oft hefur maður heyrt að það eiga að bera virðingu fyrir sér eldri og vitrari. Takið eftir og-inu þarna á milli. Eldri OG vitrari. Hér er vísað til að maður verði vitrari með aldrinum, sem er vissulega rétt. Með aukinni lífsreynslu öðlast maður meiri visku. Skólaganga hvers og eins hefur lítið með það að gera hversu mikinn vísdóm maður hefur viðað að sér. Aldur hefur hins vegar mikið að segja í því tilliti. Með tímanum lærir maður meira og meira um það sem skiptir máli í lífinu.

Fólk - og þá sérstaklega kvenfólk - er margt hvert mjög upptekið af að halda unglegu útliti. Ég get ekki skilið af hverju. Ég hlakka til þegar ég lít út fyrir að vera gömul. Fólk talar nefnilega við (h)eldra fólk af meiri virðingu en ungling, sem eðlilegt er. Eldra fólk er vitrara og unglingar eru oft til vandræða, því þeir vita minna.

Þá spyr maður sig:
Vil fólk virkilega líta út fyrir að vera heimskara en það er?
Og af hverju?
Á maður að taka því sem hrósi ef fólk heldur að maður sé yngri (=heimskari) en maður er?

Fyrir ykkur sem viljið enn halda í unglegt útlit, þá er hér aðferðin sem ég notaði:
- Drekka óhóflega mikið áfengi eins oft og auðið er.
- Stunda ekki líkamsrækt að neinu tagi.
- Borða það sem mann langar í í það og það skiptið.
- Huga lítið sem ekkert að eigin útliti.

Hef oft velt því fyrir mér hvernig maður fari að því að líta út fyrir að vera eldri. Reyndi að byrja að reykja. Það gekk ekki neitt. Þannig að núna reyni ég að brosa mikið. Þá hlýt ég að fá hrukkur eftir smá tíma.