Saturday, January 31, 2009

Jæja

Eitthvað lítið hefur maður nú nennt að skrifa hér uppá síðkastið. Ég kenni nýjasta fjölskyldumeðlimnum alfarið um það. Herra Sjónvarpi er mjög góður í að stela tíma.

Í fréttum er annars þetta helst:

Hinn pólski Penderecki kom í heimsókn í skólann og stjórnaði eigin verkum. Einnig voru haldnir kammertónleikar honum til heiðurs. Ágætt allt saman. Var svosum ekkert að deyja úr hrifningu, en ágætt. Jú, vissulega tónsmíðaði hann tímamótaverk, á sínum tíma. En það var þá... þau tímamót eru löngu liðin, og mikið vatn runnið til sjávar síðan þá. Mörgþúsundmilljónskrilljón lítrar.
Herra P. er nú samt afar merkilegur maður. Hann hefur t.d. afrekað það að verða heimsfrægt tónskáld í lifanda lífi. Ekki mörgum sem tekst það.

Síðan fyrir bankahrun hef ég unnið að því að skapa mér fjárhagslegt öryggi erlendis, hvar íslenskar krónur, eða fjármagn frá Íslandi, koma hvergi nærri. Það markmið er nú í sjónmáli. Frá komandi viku verð ég sennilega búin að koma mér upp tvöföldu hagkerfi, og mun um leið hætta að þurfa að flytja fjármuni milli landa. Loksins.
Þar með get ég hætt að lifa tvöföldu lífi og farið að lifa tveimur lífum, algerlega óháðum hvort öðru. Magnað.

Búin að vera feikidugleg í skólanum. Verð með síðustu æfingu á saxófónballettinum mínum á morgun, og túbulagið er komið vel á veg. Einhverjum smáverkefnum hefur þó verið frestað í óhófi, en markmiðið er að klára allt svoleiðis fyrir næstu Íslandsför, sem áætluð er eftir tæpar tvær vikur.

Hef sloppið algerlega við veikindi þennan veturinn. Var ekki einu sinni veik í jólafríinu, sem hefur verið fastur liður síðasta áratuginn eða svo. En nú finnst mér eins og veiki sé að krefjast inngöngu í líkama minn. Mun beita öllum brögðum til að það gerist ekki. Hyggst því eyða kveldinu í að fylgjast með undanúrslitum í júróvisjon. Norsku útgáfunni. Hef ekkert fylgst með þeirri íslensku, en ef marka má bloggskrif fólks er ég ekkert að missa af miklu.

Stjórnmál:
Ný ríkisstjórn = Gott mál
Jóhanna Sigurðar sem forsætisráðherra = Gott mál
Hvort hin nýja ríkisstjórn verði tilbúin til yfirtöku fyrir eða eftir helgi finnst mér ekki skipta nokkru máli.
Nenni að öðru leyti ekki að tjá mig um íslensk stjórnmál.
Alveg nógu margir sem sjá um það.

Takk og bæ í bili.