Saturday, February 28, 2009

Menning

Búin að mæta á 5 tónleika í vikunni. Þar af 4 á hinni árlegu Vetrar(ó)hljóðahátíð. Hið merkilega gerðist að af þessum 4 tónleikum, voru 50% alveg hreint ágætir.

Þeir fyrstu (á mánudaginn) áttu tvímælalaust vinninginn í skemmtilegheitum. Þar voru mættir nokkrir hressir Útlendingar sem spiluðu á nýuppfundin hljóðfæri. Þar mátti m.a. sjá fótstigið skrifborð með einum streng sem hljómaði eins og rafmagnsgítar, samblöndu af sellói og didjerídú-i í einu hljóðfæri. Og margt fleira. Daginn eftir var svo gefinn kostur á að mæta og prófa hljóðfærin. Ég fattaði það ekki fyrr en of seint og er enn miður mín.

Á þriðjudaginn voru tónsmíðanematónleikarnir. Þetta er í fyrsta sinn sem við fáum að koma nálægt þessari hátíð, en eftir að hafa tuðað í 1,5 ár fengum við loks að vera með. Mjög fínir maraþontónleikar. Voru reyndar fáránlega langir, en áheyrendum var gefin kostur á að yfirgefa svæðið svo lítið bæri á, í tveimur hléum sem gerð voru á tónleikahaldi. Merkilega margir sem sátu alla tónleikana.

Mætti ekki á miðvikudagstónleikana. Var of þreytt eftir "bar-óhapp" kvöldið áður.

Kennarinn minn, Daninn og einn mastersnemi áttu verk á fimmtudagstónleikunum. Þeir notuðust við ýmsa nútímatækni (vídjó, tölvukvartett o.fl.) og var útkoman leiðindi með bjánahroll. Það sem reddaði þessu var takmörkuð lengd tónleikanna (innan við klukkutími) og bjánahrollurinn sló á leiðindin að einhverju leyti.

Síðustu tónleikarnir (í gær) voru þeir al-leiðinlegustu. Fjögur verk, hvert öðru leiðinlegra. Langaði mest að leggjast í gólfið og grenja úr einskærum leiðindum. Samt voru þetta hóflega langir tónleikar. 1,5 klukkutími með hléi. Hléið var hápunktur tónleikanna. Verst að tveir samnemenda minna áttu verk á leiðindatónleikunum. Ég flýtti mér heim eftir þá til að sleppa við að tala við fólk.

Mætti líka á harðangursfiðlutónleika í gær. Harðangursfiðla klikkar aldrei.

Og í kvöld er það ofur-menningarleg bíóferð á mynd á ofur-menningarlegri kvikmyndahátíð.
Vona bara að hún sé ekki mjög leiðinleg. Held ég hafi klárað leiðindakvóta vikunnar, og rúmlega það, á tónleikunum í gær.