Monday, March 02, 2009

Í lífshættu

Hér Útlendis hefur snjóað linnulítið síðasta mánuðinn eða svo. Það ku fremur óvenjulegt hér innanbæjar, og hafa samgöngur því gengið upp og ofan síðan snjóhörkur hófust.

Snjókoman sem slík hefur ekki plagað mig mikið þar sem ég fer flestra minna ferða fótgangandi. En það getur hins vegar verið lífshættulegt í þessu árferði. Ástæðan eru snjóflóð af húsþökum og árásir risagrýlukerta frá þakskeggjum. Ef maður fær eitt svoleiðis í hausinn, sem dottið hefur úr ca. 10 metra hæð (en það er meðalhæð húsa á leið minni í skólann), þá deyr maður. Örugglega.

Og enn snjóar. Samt er kominn mars. Bind engu að síður vonir við að vorið mæti á svæðið 1. apríl, að venju. Mikið hlakka ég til.