Thursday, May 07, 2009

Mánudagsmorgnar

halda áfram að slá í gegn.

Síðastliðinn mánudagsmorgun áttum við að læra um hörpu í skólanum. Þegar þangað var komið fengum við verkefni dagsins: Að skrifa lag fyrir hörpu. Ekkert athugavert við það. Afar viðeigandi verkefni. En lagið átti að semja STRAX! og skila á hádegi þennan sama mánudag.

Já, sæææll.

Við lagasmíðina fengum við að nota eftirfarandi hjálpartæki:
- Nokkrar bækur um hörpuleik.
- Hörpukonu. Sem vildi samt frekar að við notuðum bækurnar til upplýsingaöflunar, en hún var öll af vilja gerð að koma með hljóðdæmi, spiluð á staðnum.
- Hörpu. Sem við máttum fikta í að vild. Ég notfærði mér það góða boð nú reyndar ekki, þar sem ég er einhverra hluta vegna alltaf hrædd um að svoleiðis tæki detti í gólfið og brotni í þúsund mola ef maður svo mikið sem andi á þau. Það væri ekki gaman.

Hörpukonan lenti í því fyrir nokkru að hörpunni hennar var stolið. Hver stelur eiginlega hörpu? Og hvernig fór vikomandi að því? Það er ekki eins og þetta sé hljóðfæri sem maður getur borið með góðu móti. Álíka meðfærilegt og píanó myndi ég segja. (Og álíka dýrt og flygill).

En allavega, verkefni mánudagsmorgunsins gekk vel og reyndist hin besta skemmtan.
Næsta mánudagsmorgun fáum við svo að heyra afraksturinn. Þá verður hörpukonan búin að æfa öll lögin, og mun leika þau af sinni alkunnu snilld.

Það verður nú gaman