Saturday, April 18, 2009

Hugleiðingar um kosningar

Þá er ég búin að kjósa.
Hef þó vissar efasemdir um að atkvæðið komist nokkurntíma til skila. Hér kemur ástæðan fyrir þeim efasemdum:

Í hvaða kjördæmi kjósa Íslendingar með lögheimili erlendis?
Agnesi og dömunni sem vinnur hjá íslenska sendiráðinu hér í bæ voru sammála um að þeir kysu í því kjördæmi sem lögheimili var síðast skráð á Íslandi.

En reynslan sýnir annað. Í sambærilegum kosningum 2007 kaus ég einnig utankjörfundar, og mínar búsetuaðstæður voru að öllu leyti þær sömu. Þá kaus ég hjá Sýslumanninum í Reykjavík mörgum vikum fyrir kjördag. Þá var mér tjáð að allir Íslendingar búsettir erlendis kysu í öðru hvoru Reykjavíkurkjördæminu. Óháð því hvort viðkomandi hefði nokkurntíma búið í Reykjavík. Upphafsstafir kennitölu skáru úr um í hvoru Reykjavíkurkjördæminu fólk lenti.

Eru reglur um þetta mál bara einhvernvegin frá ári til árs? Og ef svo er hver ræður þeim þá? Miðað við hvað aðrar reglur og lög um kosningar eru niðurnjörvaðar og ófrávíkjanlegar, þykir mér þetta með ólíkindum.

Ég vafraði aðeins um alnetið í leit að upplýsingum. Þar fann ég þetta á síðunni kosning.is:

Hvar lenda íslenskir ríkisborgarar búsettir erlendis sem teknir eru inn á kjörskrá ef þeir voru áður með lögheimili í Reykjavík?
Landskjörstjórn ákveður mörk norður- og suðurkjördæmis í síðasta lagi 4. apríl. Miðast sú skipting við að fjöldi kjósenda að baki hverju þingsæti sé nokkurn veginn jafnmikill og að kjördæmin séu sem samfelldust heild. Þegar íslenskir ríkisborgarar búsettir erlendis eiga í hlut verður miðað við að þeir sem fæddir eru í fyrri hluta hvers mánaðar verði í suðurkjördæmi og að þeir verði í norðurkjördæmi sem fæddir eru í síðari hluta hvers mánaðar.

Hvergi var minnst á fólk sem ekki hafði átt lögheimili í Reykjavík áður en flust var af landi brott. Kannski hefur mönnum þótt það liggja í augum uppi að þeir einstaklingar kysu í því kjördæmi sem þeir bjuggu í síðast. En það lá þá greinilega ekki ljóst fyrir í kosningunum 2007.

Og eitt enn:
Er sama í hve langan tíma síðasta lögheimilið var skráð, eða er miðað við lögheimili 1. des fyrir brottflutning?

Mitt atkvæði er á leið til Sýslumannsins á Seyðisfirði, í hvers kjördæmi ég átti lögheimili í eina viku áður en flust var af landi brott.

Það væri áhugavert að vita hvort það atkvæði verður tekið gott og gilt þar, sent eitthvað annað eða hreinlega hent í ruslið.