Saturday, May 22, 2010

Ópera og júróvisjon

Þá er enn einn tilbúinn hátíðisdagur runninn upp. Aðfangadagur hvítasunnu.
Allt er nú til.

Afrekaði það í gær að koma inn í nýja óperuhúsið hér í Útlandinu. Kannski ekkert rosalegt afrek. Húsið búið að vera í kortérs göngufjarlægð síðustu árin. Kannski meira afrek að hafa ekki komið þarna inn fyrr.
En ástæðan var ekki af verri endanum. Var boðið á frumsýningu á nýrri norskri óperu. Snobb og frægt fólk. Samt ekkert rosalega mikið af frægum skildist mér. Fullt af venjulegu fólki líka. En mér var bent á nokkra fræga. M.a. konu sem keppti í júróvisjon fyrir löngu. Há, grönn og glæsileg kona. En sagan segir að hún sé ekki með fætur. Hún hefur víst aldrei sést öðruvísi en í síðum kjólum eða pilsum. Kannski er hún hafmeyja...
Ræddi við nokkur tónskáld. Var sem betur fer ekki spurð að því hvað mér fannst um tónlistina þetta kvöldið. Þarna voru nefnilega staddir menn sem ráða því hvort ég fæ að útskrifast úr skólanum í vor, og ég nenni ekki að ljúga til um eigin skoðanir. Stundum er hins vegar alltílæ að halda þeim útaf fyrir sig ef enginn spyr.
Tónlistin í þessari óperu fannst mér ekki uppá marga fiska. Ekkert svo leiðinleg, en ekkert skemmtileg heldur. Aðallega óeftirminnileg. Man ekkert eftir tónlistinni í dag. Og þetta var í gær.
En óperuhúsið er stórt að innan. Svalir á fjórum hæðum í stóra salnum og sviðið risastórt. Þrír fílar í fullri stærð og risavaxinn úlfaldi (örugglega 6 metrar á hæð og önnur hlutföll í samræmi við það) tóku ekki nema lítinn hluta af sviðinu.
Trítlaði aðeins um sviðið eftir æfingu (til að heilsa upp á fræga fólkið og svona), og sá að hliðarsviðið var risastórt líka. Sá aðeins glitta í úlfaldann langt, langt í burtu. Samt var þetta inni. Lofthæðin á sviðinu var líka gígantísk. Nokkuð margir tugir metra.

En að öðru mikilvægara. Júróvisjon.

Í fréttum ríkissjónvarpsins hér í júróvisjonlandi var Íslendingum spáð sigri. Viðtal við íslenska útvarpsstjórann og allt útaf þessu stórmáli. Því hvað gera Íslendingar ef þeir þurfa að halda keppnina nú á þessum síðustu og verstu tímum? Sjitt. Þessi umræða kemur vissulega upp á Íslandi á hverju ári. Litla fólkið frá Íslandi alltaf sigurvisst. En ég hef aldrei séð þessa umræðu í erlendum fjölmiðlum. Og það var ekkert verið að spá neinum öðrum sigri. Sjitt.
Einhver útlenskur kall sagði í þesssari sömu frétt að lönd sem hefðu ekki efni á að halda keppnina ættu einfaldlega ekki að taka þátt. Það finnst mér nú fullgróft. Á þetta þá bara að vera ríkulandakeppni?

Ætlaði að kaupa skó í dag. Kom heim með ljósritunarpappír í 5 litum.
Það er ekki það sama.