Wednesday, October 05, 2005

Djasskvöld

Er alltaf að komast betur og betur að því hvað þetta er frábær skóli sem ég er í. Mætti skólastjóranum á förnum vegi. Hann innti eftir því hvort ég væri ekki örugglega að fá alla þá kennslu sem ég óskaði eftir. Ég hélt nú það og það er sko alveg FULLT. Og reyndar gott betur. Skilst að það eigi að búa til sérstakan Íslendingatónfræðakúrs, þar sem við erum búnar að læra dáldið meira en útlendingarnir. Förum á fund með viðkomandi kennara eftir haustfríið þar sem ákveðið verður hvað við viljum læra í þeim fræðum í vetur.
Hér er líka ofsalega sniðugt umsjónarkennarafyrirkomulag í gangi. Maður fer í viðtal á tveggja vikna fresti og segir skoðun sína á hlutunum. Ég er búin að fara einu sinni í svona viðtal. Talaði aðallega um hvað lúðrasveitarkallinn væri mikill asni (og rökstuddi þá skoðun mína á faglegan hátt). Og viti menn. Daginn eftir var kallinn eiginlega alveg hættur að vera asni. Já. Samskipti kennara skipta máli. Minnist þess að svipað kerfi (þ.e. umsjónarviðtöl) hafi verið viðhaft í ME á sínum tíma, en þar virkaði það bara aldeilis ekki. Var alltaf að tuða yfir einhverju, jafnvel því sama árum saman en ekkert gerðist.
Hef reyndar smá áhyggjur af því að ég hafi ekkert að tuða yfir svona oft. Þessa dagana er allt ótrúlega frábært og ég sé ekki fram á að það breytist á næstunni.

Í gær átti Maria sambýlingur minn afmæli. Til hamingju með það Maria. Í tilefni dagsins var haldið barnaafmæli í Húsi E með blöðrum, snakki, gosi og prjónakonum.

Í kvöld er djasskvöld. Áðan spiluðu fjórar djasshljómsveitir í röð og nú leikur stórsveit hússins fyrir dansi.
Í tilefni djasskvöldsins ætla ég að deila með ykkur örsögu sem mig minnir að Garðar nokkur Harðarson hafi sagt mér á sínum tíma. Hún var eitthvað á þessa leið:
Maður nokkur spurði annan mann hvort hann hlustaði eitthvað á djass. Viðmælandinn svaraði: “Já, ég hef hlustað dáldið á djass og mér finnst það ekkert sérstaklega skemmtilegt lag”.

Að lokum vil ég þakka frábær viðbrögð við textabeiðninni hér að neðan. Vonast auðvitað til að fá enn fleiri til að velja úr.

Takk fyrir mig