Í haustfríi
Skil nú ekki alveg hvað fólk var að væla um að þetta haustfrí væri ótrúlega langt og ég myndi örugglega deyja úr einmanaleik yfir að þurfa að vera hérna alein allan þennan tíma. Ég bjó til langan lista yfir allt sem ég þurfti að gera í þessu ótrúlega langa haustfríi og mun sennilega ekki takast að klára helminginn af því. En ég er búin að:
a) Vera frekar slöpp allan tímann
b) Vera (internet)sambandslaus við umheiminn í 3 daga
c) Horfa á ótæpilega marga Friends-þætti
d) Byrja að semja kórverkið
e) Byrja að færa Moldvörpulagið yfir á norsku
f) Klára að prjóna 1 vettling á Berglindi
g) Æfa mig ekkert svo mikið
Haustfríið er ekkert langt. Það var lygi.
Lenti í furðulegu símaveseni áðan. Fékk sms, sem er ekki í frásögum færandi, nema ég skildi innhaldið (sem var á norsku) ekki alveg. Skilboðin voru sennilega ekki ætluð mér. En svo fékk ég sama sms-ið aftur .......og aftur. OK það gerist að fólk sendi sama sms-ið óvart 2svar eða 3svar. Þegar ég var búin að fá þessi skilaboð 5 sinnum sendi ég skilboð til baka um að nú væri ég búin að fá þessi skilaboð nokkuð oft og botnaði þar að auki ekkert í þeim. Þegar ég var búin að fá skilaboðin u.þ.b. 15 sinnum reyndi ég að hringja í viðkomandi (sem er maður sem ég vinn með) og láta hann vita af þessum endalausu sms-sendingum. Hann hefur líklega ýtt á “svara” takkann án þess að taka eftir því (eða verið alveg blindfullur um hádegi á föstudegi). Ég náði allvega engu sambandi við hann. Og þetta sama skilaboð hélt áfram að berast. Í allt urðu þetta 50 alveg eins sms! Já, einhver á eftir að fá háan símareikning um næstu mánaðarmót ef þetta gerist oft.
<< Home