Um Afríku
Ég er nú ekki alveg jafn alein hérna í fríinu einsog ég hélt. Hér eru 4 Afríkanar auk mín. Þetta er það sem ég hef lært um Afríkana á einum degi:
-Þeir eru ekki mjög góðir í landafræði (spurðu hvort Ísland væri nálægt Alaska).
-Þeir eru hræddir við snjó og kulda og kvíða því þegar það verður kaldara en nú er orðið (nú eru enn u.þ.b. 10 gráður í plús, og hér er spáð um 30 gráðum í mínus yfir hörðustu vetrarmánuðina).
-Þeir eru hins vegar ekkert hræddir við að klífa fjöll í aftakarigningu og slagviðri.
-Í Suður-Afríku eru töluð a.m.k. 11 tungumál. Krakkarnir sem eru hér tala ekki öll sama tungumálið og tala því saman á engilsaxnesku.
-Í Afríku læra lúðrasveitarkrakkar ekki að lesa nótur. Þau læra allt eftir eyranu og þau eru hér í Útlandinu til að læra að lesa nótur og kenna útlenskum krökkum að spila án nótna. Sniðugt.
Það er líka eitthvað af starfsfólki hér í fríinu. Fólk í eldhúsinu alla daga. Nú er kokkurinn að baka rúnstykki handa okkur. Já. Þetta er alveg eins og að búa á hóteli núna. Þar sem eru álíka margir gestir og starfsfólk. Afríkanarnir fara svo í ferðalag á miðvikudaginn til að kenna krökkum. Þá verður talsvert fleira starfsfólk en gestir hér á hótelinu (ég verð semsagt pottþétt ein eftir þá). Þangað til höldum við Afríkanarnir að mestu til í stofunni/matsalnum. Þar er nefnilega poolborðið, internetsambandið og sjónvarpið. Þessi óvænti félagsskapur verður samt sennilega til þess að minna verður af æfingum og tónsmíðum en áætlað hafði verið.
Síðasti skiladagur fyrir texta er þó á morgun. Ef einhverjir fleiri hyggjast senda mér texta þurfa þeir hinir sömu að drífa í því. Dómnefnd mun að öllum líkindum velja kórverkstextann eigi síðar en á þriðjudag.
<< Home