Wednesday, October 12, 2005

Víðáttan

Á flestum stöðum í heiminum er víðáttan utandyra. Því er þó ekki þannig háttað hér í Fellabæ Noregs. Víðáttan í er matsalnum/stofunni. Utandyra eru trén. Hér finnur maður líka ýmislegt fleira utandyra sem ekki gæti talist eðlilegt á Íslandi. Ef maður fær sér göngutúr í óspilltri náttúru Íslands rekst maður kannske á gamla fjárrétt eða rústir af gömlum bæ. Það er hins vegar ekki á færi hvers sem er að koma auga á slíkar rústir. Held að það sé eiginlega bara Páll Pálsson frá Aðalbóli sem sér slíkt, því munurinn á rústum og þúfum er ....... enginn. Rústirnar eru þúfur í örlítið reglulegri mynd en gengur og gerist. Hér í landi Norðmanna rekst maður hins vegar á trjáhýsi og misgömul eldstæði í skóginum og ..... SKÍÐASTÖKKPALLA! Ójá. Í miðju einskinsmannslandi í útjaðri skógar hér í Fellabænum má finna gamlan skíðastökkpall. Þykir reyndar ólíklegt að hann sé enn notaður því hann er frekar fúinn greyjið.

Í Húsi E er víðáttan horfin undir draslið mitt sem hefur tekið upp á því að fjölga sér og dreifa sér út um allt hús. Þá aðallega prjónadótið. Ótrúlegt hvað getur farið mikið fyrir nokkrum spottum og prikum.