Saturday, October 08, 2005

Partý!

Þá er ég orðin ein eftir í Húsi E. Sambýlingarnir (og reyndar flestir aðrir líka) farnir til síns heima. Hér á svæðinu eru reyndar 4 krakkar frá Suður-Afríku. En þau fara í ferðalag á miðvikudaginn.
Hér í Húsi E er mjög partýlegt um að litast. Blöðrur upp um alla veggi síðan í barnaafmælinu á þriðjudaginn og bílateppið hans Sigmund á stofugólfinu. Bílateppi er teppi með myndum af götum og húsum svo maður geti farið í bíló. Íbúar Húss E fengu nefnilega þá snilldarhugmynd að búa til flatsæng á stofugólfinu til að geta lagt sig og talað saman á meðan. Bílateppið er semsagt leifarnar af þeirri hugmynd.

Held ég sé pottþétt orðin mesta kennarasleikja skólans. Hér koma nokkrar staðreyndir sem styðja þá kenningu:
-Fór til Jóns skólastjóra áðan og fékk lykla að ÖLLUM dyrum skólans. Jafnt inni- sem útidyrum (partýið getur því teigt sig yfir ansi stórt svæði).
-Ég er boðin í mat til yfirkennarans á mánudaginn (ásamt Afríkukrökkunum reyndar).
-Við Berglind erum búnar að afla okkur nafnbótarinnar “kontrapunktsnördar skólans”. Ansi vafasamur titill það.
-Ég er að spila verk sem undirleikari skólans þarf að æfa heima. Það er rosalegt. Þessi undirleikari er nefnilega með u.þ.b. 30.000 megabæta minni. Hann hefur spilað ALLT (nema kannski eitthvað eitt) og hann getur spilað þetta ALLT í fyrstu tilraun (nema kannski eitthvað tvennt). Honum finnst íslenska orðið “undirleikari” frábært en “meðleikari” ekkert flott. Og ég held að honum finnist alveg ótrúlega gaman að hafa eitthvað að æfa heima. Hlýtur að vera skrítið að geta spilað ALLT.
-Var í tónsmíðatíma í klukkutíma og korter á þriðjudaginn (ég á að fá hálftíma í viku).
-Í lúðrasveitinni er ég skyndilega búin að fá alla sópran-sax og 1. alt-sax parta (upphaflega áttum við eitthvað að skiptast á) og að auki öll sóló sem eiga að spilast á óbó eða enskt horn (viagra-óbó). Þetta þýðir ansi mikla transponeringarvinnu, því ég spila þetta jú allt á saxófónana.
-Brass-band skólans er byrjað að æfa eina verkið sem ég er búin að tónsmíða síðan ég kom.

Það er semsagt nóg plásss í partýinu. Og þá meina ég svona nokkur þúsund fermetrar til afnota fyrir gesti og gangandi.