Frekar rólegt ennþá
Í gærkveld var afmælisveisla í Húsi E. Það var mjög fínt. Pitsur, íslenskt nammi og Fimbulfamb á norsku. Missti reyndar af meiripartinum af afmælinu þar sem ég var í nútímatónlistarsögutíma. Ekki skemmtilegasta tónlist í heimi að hlusta á, en ansi áhugavert að heyra sögur af köllunum sem sömdu hana og þeirra hugmyndir um hvernig ætti að semja tónlist.
Terror dagsins var að kórkallinn (sem er sá eini á svæðinu sem ég er hrædd við. Hann er alveg sköllóttur og stór og með ennþá stærri rödd) bað mig að hjálpa sér aðeins og dró mig með inn á skrifstofuna sína. Hann hafði semsagt fengið slatta af íslenskum kórverkum sem hann hyggst nota næsta vetur og vildi vita um hvað þau fjölluðu og hvað titlarnir þýddu. Og hvort þetta væru þekkt íslensk tónskáld. Ég gerði honum grein fyrir því að á Íslandi byggju MJÖG fáir þannig að allir þekktu til allra. Hvort viðkomandi tónskáld væru þekkt utan landsteinanna vissi ég ekkert um. Svo kom að því að þýða. Þetta voru alveg helv... mörg verk og titlarnir á mörgum alveg fáránlegir, þannig að ég vissi varla hvað þeir þýddu á málinu ylhýra, hvað þá að ég gæti farið að færa þá yfir á önnur tungumál. Ekki bætir það úr skák að engilsaxneskan versnar lítið eitt meðan norskan síast smám saman inn. Þannig að nú er svo komið að ég er ekki almennilega talandi svo heitið geti á neinu erlendu tungumáli. Fúlt að hafa bara pláss fyrir eina útlensku í hausnum. En þetta “litla” verkefni kostaði töluverðan svita.
Annars fara dagarnir mjög mikið í að sitja eða liggja og gera ekkert annað á meðan, nema í mesta lagi að tala við fólk eða horfa á sjónvarpið. Tel hluta ástæðunnar fyrir þessari gífurlegu leti vera nýendurkomið kvef og smá slappleika.
<< Home