Sunday, January 08, 2006

Í fréttum er þetta helst

Í gærkveld héldu nokkrir nemendur skólans (svona 60-70 stykki sennilega) í bæinn í þeim tilgangi að gera sér dagamun (sem fól að sjálfsögðu í sér talsvert af neyslu áfengra drykkja) í tilefni af upphafi hinnar síðari annar skólaársins. Þessi ferð var að mestu leyti keimlík öðrum slíkum ferðum, fyrir utan það að nú gubbaði enginn. Það er orðið of kalt úti til að gubba. Hins vegar trítlaði ein stelpan úr Húsi E niður næstum alla göngugötuna á sokkaleistunum af því að henni var illt í fótunum. Það var 10 stiga frost. Minnsta stelpan í Húsi E hélt á henni síðasta spölinn í leigubílaröðina.

Að öðru leyti er allt með rólegasta móti. Ég er farin að vera dugleg að æfa mig. Ætla líka að fara að vera dugleg að tónsmíða. Hef nefnilega allan tíma í heiminum flesta daga. Munar þar mestu um að ég hætti í vinnunni fyrir jól. Þetta er allt annað líf. Ekkert stress og engar óþarfa áhyggjur.

Í skólaumsóknamálum fyrir næsta ár er það helst að frétta að ég dró til baka umsóknirnar í Danmörku. Nennti bara ómögulega að flækjast um Danmörku næstum allan janúarmánuð til að vera í inntökuprófum í tveimur skólum. Fáránlegt hvað það er hægt að láta þetta taka langan tíma. Þannig að nú eru það bara tveir skólar sem sótt verður um í. Í Osló og Gautaborg. Á reyndar eftir að senda inn umsóknina í Gautaborg. En það gerist örugglega á næstu dögum. Verst hvað maður verður latur af að hafa ekki brjálað mikið að gera. En það er gott að vera latur.

Best að fara að gera eitthvað mikilvægt. Prjóna og horfa á sjónvarpið.