Tuesday, January 17, 2006

Manndrápsfærð

Nú er hált. Ójá. Og reyndar svo hált að það er stórhættulegt að fara út fyrir dyr hér á skólasvæðinu. Komst reyndar að því í gær að það er ekkert hált þegar komið er út fyrir svæðið. En leiðin Skóli-Hús E er nánast ófær. Allavega styttri leiðin. Fer alveg að verða spurning um að hætta að stytta sér leið í gegnum bakgarðinn hjá rektor ef ástandið varir miklu lengur. Hugsa að það sé minni hálka á veginum, en sú leið er örugglega tíu skrefum lengri þannig að maður nennir nú varla að tékka á því.

Kvefið hefur yfirgefið mig að sinni og er þess ekki saknað. Letin hefur líka minnkað til muna, þannig að nú er ég bara ansi dugleg að æfa mig og tónsmíða. Sem er gott. Því nú fer að styttast í “Tónleikaferð dauðans #2” og ég reikna fastlega með því að vera nokkrar vikur að jafna mig eftir hana. Í alvöru talað, planið gerir ráð fyrir 2-3 tónleikum á dag (+ ferðum á milli tónleikastaða náttúrulega) og til þess að það gangi upp þarf liðið að vakna eigi síðar en 7 og kemst ekki í bælið mikið fyrir miðnætti. Og þetta eru heilir 4 dagar. Já. Ég kann nú betur við íslensk lúðrasveitarferðalög þar sem markmiðið er að innbirgða sem mest áfengi á meðan á ferðalaginu stendur.