Ferðalögin
Ferðsögur síðustu vikna verða hér sagðar í stuttu máli:
Í páskafríinu var ég á Íslandi. Nánar tiltekið í Reykjavík. Það var MJÖG gaman, en að sama skapi ekki mjög hollt. Óreglan var algjör. En ég hitti margt skemmtilegt fólk og skipulagði sumarið nokkuð vel.
Eftir páskafríið skrapp ég aðeins heim í Hús E til að sofa dáldið og pakka upp á nýtt. Svo var ferðinni heitið til Budapest. Þar var gott veður. Þetta var bara svona venjulegt ferðalag og gerðist svosem ekki margt sem er í frásögum færandi. Bara þrennt:
Ég fór í dýragarðinn og sá fullt af dýrum sem ég hafði aldrei sé áður. Hafði reyndar ekki séð mikið fleiri dýr en hund, kött, hest og ánamaðk áður en ég kom í dýragarðinn. En þarna voru saman komin ótrúlega mörg dýr. Ljón, tígrisdýr, gíraffar, ótlejandi tegundir af öpum, leðurblökur, fílar og fullt af öðrum dýrum.
Ég fór í sund (það gerist næstum aldrei) og það var fínt (ótrúlegt en satt). Þar í landi er nefnilega ekki meiningin að synda heldur aðallega liggja í misheitum laugum og hafa það gott. Þarna var einn pollur sem mátti synda í og u.þ.b. 10 (misheitir) þar sem mátti bara sitja/liggja. Afar huggulegt.
Ég fór á ballett í óperuhúsinu í Budapest. Það var alveg frábært. Tvímælalaust hápunktur ferðarinnar. Hef aldrei áður séð ballett og hélt eiginlega að ég hefði ekki mjög gaman að svoleiðis löguðu. Það var misskilningur.
Það merkilegasta við þessi ferðalög er eiginlega að það gekk allt upp. Engin seinkun á flugvélum, rútum eða lestum og ekkert vesen. Gerðist bara eitt smávegis sem var meira skemmtilegt en vesen:
Á flugvellinum í Budapest þegar ég var á leiðinni til baka til Noregs var ég kölluð upp í hátalarakerfinu og skipað að koma að upplýsingaborðinu. Það gerði ég. Þangað kom kona sem sagði að ég þyrfti að gera grein fyrir einhverju í farangrinum mínum. Ég fór með henni til baka í gegnum hliðið, framhjá inntékkinu og þar á bakvið þar sem farangurinn er gegnumlýstur. Þar inni var önnur kona sem var að gera grein fyrir sínum farangri. Hún var með FULLT af byssukúlum. En það var allt í lagi af því að hún var herkona. Hún var bara spurð hvort hún væri ekki með svona eða hinsegin byssudót líka, en hún vara bara með byssukúlurnar.
Ég var ekki með byssukúlur. Bara lítinn kassa úr málmi sem var ekki hægt að gegnumlýsa. Hálfskammaðist mín fyrir að vera ekki með neitt merkilegra fyrst ég var nú á annað borð komin þarna á bakvið. Litli kassin minn innihélt 12 litlar brennivínsflöskur. Eftirlitsfólkinu fannst þetta rosa flottur kassi og gerður engar athugsemdir við innihaldið. Svo fékk ég flott gult límband utan um töskuna mína til merkis um það að farangurinn hefði staðist öryggispróf.
Þetta límband hengdi ég uppá vegg í Húsi E. Ekkert smá kúl.
<< Home