Menning, þjófavarnir og skattframtal
Laugardagurinn var menningarlegur. Fór á listasafn með nokkrum stelpum úr Húsi E. Það var menningarlegt. Um kvöldið fórum við svo út að borða menningarlegar flatbökur og horfðum á menningarlega mynd eftir að við komum til baka. Allt mjög menningarlegt semsagt.
Gærdagurinn var ekki jafn menningarlegur. Byrjaði daginn á því að setja þjófavarnarkerfi skólans í gang, þegar ég ætlaði ásamt fleiri krökkum að fara að æfa mig. Þetta er einn af þessum hlutum sem ætti ekki að vera hægt að gera, því það á einhver (sá kennari sem er með umsjón þann daginn) að koma eldsnemma á morgnana, taka úr lás og slökkva á þjófavarnarkerfinu. Sá sem var með umsjón á laugardaginn hefur sennilega gleymt að læsa og sá sem átti að koma á sunnudagsmorguninn, kom bara ekki. Þannig að um leið og við, vesalings nemendurnir gengum inn um dyrnar, fór þjófavarnarkerfið í gang með þeim afleiðingum að heilinn þaut næstum út um eyrun. Slatti af hávaða. Svo tók dágóðan tíma að finna einhvern til að slökkva á kerfinu. Hér tíðkast það nefnilega ekki að þjófavarnarkall komi og athugi hvað sé á seyði. Kemur sér vel fyrir bófa sem eru ekki hræddir við hávaða. Á endanum kom kona skólastjórans og slökkti á draslinu.
Alltaf gaman að lenda í ævintýrum snemma á sunnudögum. Gefur deginum gildi.
Rétt í þessu var ég að skila norska skattframtalinu mínu. Það tók tvær mínútur.
<< Home