Sunday, March 19, 2006

Hin ég

Í gær var partý í sveitinni. Agalega huggulegur partýstaður í litlu félagshemili lengst inni í skógi. Flestir skemmtu sér hið besta en sumir gubbuðu. Ein ágæt vinkona mín eyddi dágóðum tíma hálf ofaní klósettinu. Ég og hin ég vorum duglegar að skiptast á að draga hana upp úr því.

“Hin ég” er stelpan í skólanum sem lítur út alveg eins og ég. Systir hennar var í heimsókn í gær. Hún lítur ekkert út eins og við. “Hin ég” heitir Sara og spilar á trompet. Mér finnst gaman að hafa einhvern sem er alveg eins og ég, en fyrsta daginn sem ég var í skólanum var þetta frekar skrítið. Maður var nýfluttur í Útland (og var hálfruglaður og út úr heiminum eftir flutningana), skildi ekki mikið og byrjaði skólaárið á kóræfingu. Á þessari kóræfingu lenti ég í því að standa beint fyrir aftan stelpuna sem var alveg eins og ég. Hugsanir á borð við: “Hei! Þarna er ég! Nei, það getur ekki verið. Ég er hér.” Voru ekki óalgengar í mínum haus þann daginn. En nú er þetta bara kúl.

Er þessa dagana að semja lag fyrir”hina mig” og klarinettustelpuna sem gubbaði. Það heitir “Tveir bláir sokkar”. Klarinettustelpan valdi nafnið.

Það er alltaf gaman að mæta í morgunmat daginn eftir svona partý. Ótrúlega mikið af ljósgrænum andlitum sem verða á vegi manns.

Farin aftur að sofa.