Sunday, November 19, 2006

Að læra á hljóðfæri?

Merkilegt hvað maður er miklu duglegri dagana sem maður þarf ekki að mæta í skólann. Vaknar fyrir hádegi hress og sprækur til að takast á við heimaverkefni vikunnar. Eitthvað sem maður nenni aldrei að gera efitr venjulegan skóladag, jafnvel þó hann sé stuttur.

Í morgun fór ég í hljóðver skólans, tók smá upp og gerði verkefni. Þessar vikurnar erum við aðallega að læra að láta tölvuhljóð hljóma eins og alvöru hljóðfæri. Við erum semsagt að flytja tónlistina úr hefðbundnu nótnaskriftarforriti yfir í upptökuforrit, og fáum það til að hljóma eins og alvöru hljóðfæri með hjálp þar til gerðs hljóðfærahermiforrits. Þetta hljómar eiginlega alveg eins og ef um alvöru hljóðfæraleik væri að ræða. Siðugt. Eða hvað? Er ekki pínu skrítið að kenna ponsulitlum hluta nemenda að gera hina nemendur skólans atvinnulausa að námi loknu?

Þetta er víst framtíðin. Í heimi kvikmyndatónlistar er mikið farið að nota þessa tækni. Ódýrara að ráða einn kall í nokkrar vikur til að gera þetta, en heila hljómsveit í einn dag.
Spurning um siðferðislegt réttmæti.