Wednesday, November 15, 2006

Skór og tuð

Er að verða búin að jafna mig eftir maraþonnámskeiðið í síðustu viku. Allavega hætt að dreyma litla kassa með tölum og orðum. Það er ágætt.

Festi í dag kaup á vetrarskófatnaði ársins, sem er öllu viðaminni en vetrarskófatnaður síðasta árs. En smekklegur engu að síður. Var að vonast til að geta prófað þessa nýju félaga mína á næstu dögum, en veðurspáin hljóðar upp á rigningu og 10 gráður í plús, þannig að það verður að bíða betri tíma ( = verra veðurs). Árstíðirnar eru ekki alveg með á nótunum þessa dagana.

Nú er bara lokaspretturinn fyrir jólafrí eftir. Nokkur verkefni, píanóæfingar og eitt próf. Kannski. Eða meira svona könnun bara. Ekkert stress.

Þarf reyndar eiginlega að fá eitt mál á hreint hjá skrifstofufólkinu. Þeim tókst nefnilega að gera það sem engum hefur nokkurn tíma tekist á minni skólagöngu. Að búa til árekstur í stundaskránni minni. Það er alveg fáránlegt. Hér er nefnilega við lýði einhvers konar bekkjarkerfi, þannig að ég er eiginlega alltaf með sömu fjórum strákunum í öllum fögum. Það eru 2 fög sem við erum ekki saman í, og ég er búin að fá undanþágu frá öðru þeirra. Þessu eina fagi sem eftir stendur tókst semsagt að reka utaní annað fag. Ætla að reyna að fá lausn á þessu máli fyrir jólafrí, en miðað við hraða á úrvinnslu mála hér á bæ reikna ég ekki endilega með að það takist. En ég mun gera mitt besta ( = tuða óbærilega mikið þangað til ég fæ það sem ég vil. Virkar oft.)