Suð
Eins og fram hefur komið er nú hátíðarvika í skólanum vegna viðbyggingarinnar. Hver dagur vikunnar hefur sitt þema. Þá daga eru haldnir fyrirlestrar sem tengjast efninu og á kvöldin eru haldnir tónleikar sem sýna brot af því besta sem tengist þema dagsins. Flestir hafa passað upp á að hafa þetta “brot” ekki of langt. Semsagt tónleikar í hæfilegri lengd. Miðað er við að gestir og gangandi komi á þessar uppákomur, þannig að reynt er að hafa dagskránna aðgengilega fyrir hinn almenna borgara.
Á þriðjudaginn var tónsmíðadagurinn. Ágætis fyrirlestrar, en svo komu tónleikarnir. Ég giska á að ákvarðanataka um efni tónleikanna hafi farið svona fram:
Tvö tónskáld ræða saman um efni fyrirhugaðra tónleika:
T1: Hvað ættum við að hafa á þessum tónleikum.
T2: uuu ..... hey, ég veit! Höfum BARA raftónlist.
T1: Góð hugmynd! Og höfum þessa tónleika lengri en alla hina tónleikana svo allir sjái hvað við erum að gera margt merkilegt í þessum skóla.
T2: Já! Maraþontónleika með eintómri raftónlist. Það er sko eitthvað fyrir alla!!!
Gæti verið hægt að gera meiri mistök varðandi tónleika ætlaða hinum grunlausa borgara?
Það voru semsagt maraþontónleikar þar sem boðið var upp á .... suð. Í fjóra tíma. Ég fór heim í fyrsta hléi, og dauðvorkenndi miðaldra konunum í loðfeldunum, sem eflaust hafa verið of kurteisar til að láta sig hverfa fyrir lok tónleikanna.
Er einmitt nýbyrjuð í fagi sem miðar að því að kenna manni að hlusta á suð. Ekkert vitlaust svosem ef maður á það á hættu að lenda á mörgum svona tónleikum. Þá hefur maður allavega lært að reyna að finnast þetta áhugavert.
Kennarinn sem kennir “suðkúrsinn” var einmitt sá eini sem fannst það “mál” að ég skildi missa af tímanum í næstu viku. Af því að hvað er mikilvægara en að læra að hlusta á suð?
Ja, maður spyr sig ...
<< Home