Tuesday, January 09, 2007

Breytingar

Ýmsar breytingar áttu sér stað hér í Útlandinu á meðan ég var í burtu:

- Bláu útidyrahurðinni á blokkinni minni var skipt út fyrir svarta.
- Matvöruverslun var opnuð á neðstu hæð hússins sem ég bý í, þannig að nú þarf ég varla að fara út fyrir dyr nema til að fara í skólann.

Mestu breytingarnar áttu sér þó stað í skólanum, þar sem 6.000 fermetra viðbygging var tekin í notkun nú eftir jólafríið. Skólinn telur þá um 20.000 fermetra. Það eru tæplega 35 fermetrar á hvern nemanda/starfsmann skólans.

Ýmsar nýjungar fylgja þessu nýja húsnæði. Í hverja kennslustofu er nú komið skrifborð/ræðupúlt á hjólum, sem inniheldur hljómflutningstæki, tölvu og nýmóðins myndvarpa. Glærur heyra nú sögunni til og í staðinn er kominn skanni sem tekur myndir af upplýsingum (t.d. af pappír) og varpar beint upp á tjald með þar til gerðum skjávarpa.
Þvílíkt tæknilegt.
Framan á þessum skrifborðsræðupúltum er glerplata með nafni og merki skólans, og litlu bláu ljósi á bakvið. Voða sætt.

Nýja húsnæðið er samt ekki alveg tilbúið. Víðast hvar hanga leiðslur niður úr loftinu, og eftir er að fínpússa ýmsan frágang. Einhverjir flutningar fylgja líka þessu nýja húsnæði. Margir starfsmenn fá nýjar skrifstofur og því má sjá stafla af pappakössum á stöku stað.
Eitt pappakassafjallið er staðsett í andyrinu. Ég veitti því enga sérstaka athygli þar til mér var bent á að þarna væru á ferðinni píanóbekkirnir fyrir alla nýju flyglana sem eiga að vera í nýbyggingunni. Með vitneskjunni um að með hverjum þessarra kassa fylgdi flygill, varð kassafjallið mun áhugaverðara. Fjallið telur þónokkra tugi kassa.

Ef það er eitthvað sem er nóg til af hér í landi Norðmanna, þá eru það peningar.
Og flyglar.