Monday, January 22, 2007

Kjötlagið

Lenti í símaviðtali áðan við svæðisútvarpið á Austurlandi. Um kjötlagið.

Það vildi ekki betur til en svo, að ég var á leið heim úr skólanum þegar ég lenti í viðtalinu. Leiðin heim úr skólanum liggur eftir götu þar sem umferð verður að teljast með meira móti. Og þar sem ég á erfitt að gera fleira en eitt í einu, þá getiði rétt ímyndað ykkur hvernig gekk að labba í sleipum snjó, reyna að finna upp á einhverju gáfulegu að segja OG yfirgnæfa umferðargný. Man semsagt ekkert hvað ég sagði, en það var örugglega ekki gáfulegt. Ef þetta verður notað í útvarpinu og virkar glatað og heimskulegt, þá vil ég koma því á framfæri að kjötlagið verður kúl og skemmtilegt.

Kjötlagið átti eiginlega að vera hálfgert leyndó, en það er greinilega erfitt að eiga leyndó. Er bara rétt nýbyrjuð á þessu lagi og nú verð ég að klára það bráðum svo Sóley geti örugglega spilað það í vor. Eða ertu ekki til í það Sóley?

Annars er ekki mikið að frétta. Hátíðarvika í skólanum að tilefni vígslu nýju sexþúsund fermetra viðbyggingarinnar (sem er ekki alveg tilbúin). Að því tilefni var ég í skólanum fram eftir kveldi í gær að tengja hátalara og hljóðnema út af einhverju hljóðverki, sem virkaði svo ekki útaf einhverju tölvudæmi. Týpískt.