Aftur í Útlandinu
Þá er ég komin í Útlandið enn einu sinni.
Varð vör við talsverðar andstæður á ferðalögum mínum. Á leiðinni til Íslands lenti ég í nokkur þúsund manna biðröð, þar sem rýma þurfti flugstöðina í Osló. Setti þar með persónulegt met í bæði tímalengd biðraðar og fólksfjölda í biðröð. Tók reyndar mun styttri tíma að koma öllum í gegnum öryggishliðið aftur en ég reiknaði með. Missti samt af föstudagsæfingunni í Sveitinni, en náði djamminu.
Á leiðinni aftur til Útlandsins var Palli-var-einn-í-heiminum stemmingin allsráðandi. Það var nánast enginn í flugstöð Leifs Eiríkssonar. Labbaði eftir öllum ganginum í átt að flugvélahliðinu og sá engan á leiðinni. Undarlegt mjög.
Tónleikarnir heppnuðust bara þokkalega held ég. Tónleikagestir virkuðu allavega nokkuð ánægðir. Og svo var auðvitað partý eftir tónleikana. Sem entist langt fram á morgun að mér skilst. Alltaf gaman að því.
Missti af einni viku í skólanum, og verð örugglega smástund að vinna það upp miðað við lesefnisbunkann sem var í pósthillunni minni í skólanum áðan. Þá er bara að láta hendur standa fram úr ermum. Held samt að það verði lítið gert í dag. Er hálf dösuð ennþá eftir ferðalög og partý, og verkefni dagsins sýnist mér vera að pakka upp úr töskunni og sortera pappírana úr hillunni. Sit nefnilega heima hjá mér núna í hrúgu af fötum, pappírum og ýmsu drasli sem ég hirti úr geymslu systur minnar.
En það er sól úti. Það er gaman.
<< Home