Friday, February 23, 2007

Gagnlegur fróðleikur

Já. Námskeið í þjóðlagatónlist er algerlega málið. Lærði að spila, syngja og dansa samkvæmt gömlum hefðum og innbyrgði helling af ýmisskonar fróðleik um helstu hljóðfæri liðinna alda hér á landi og margt fleira athyglisvert.

Það var t.d. aðeins rætt um þjóðsögur og vísur. Hér fjalla flest kvæði og sögur um vondar kellingar. Ef það er góð kona í sögu, er hún oftar en ekki drepin af eldri systur sem vill gifast heitmanni þeirrar yngri. Svo finnst kannski líkið af yngri systurinni af ókunnugum mönnum, og af einhverjum ástæðum er líkömum látinna oft breytt í eitthvað annað. Í ýmsum löndum tíðkast það að sálir hinna látnu lifi í fuglum eða öðrum dýrum, en hér er líkinu oft breytt í hljóðfæri, t.d. fiðlu eða hörpu. Merkilegt.

Í gærkveld var haldin hátíð til að gefa kost á að nýta hina nýfengnu kunnáttu við raunverulegar kringumstæður. Þar var etið, drukkið, sungið, spilað og dansað. Mjög skemmtilegt og sveitt. Norskir þjóðdansar byggjast að miklu leyti á að hlaupa og hoppa, þannig að sviti setti mark sitt á þá daga sem danskennsla fór fram.

Það að sýna fram á notagildi þess sem kennt var á námskeiðinu vakti mann til umhugsunar um skólagöngu almennt. Eru ekki allt of mörg fög sem hafa í raun lítið sem ekkert notagildi? Jafnvel í eins sérhæfðu námi og því sem ég stunda þessa dagana má finna fög sem mjög fáir koma til með að nota í framtíðinni.

Ætla að nefna eitt dæmi:
Tónheyrn. Það er fag sem talið er ótrúlega mikilvægt í mínu námi og allir í skólanum verða að taka í tvö ár. Áður hef ég tekið þrjú ár af þessu fagi í Tónlistarskólanum í Reykjavík, en það þótti ekki nógu góður grunnur fyrir núverandi nám. Þegar þessu námi lýkur verð ég með 5 ár af tónheyrnarmenntun á bakinu. Til þessa hefur hún ekki nýst mér, og ég sé ekki fram á að þessi tvö viðbótarár verði mér til góða. Hélt að ég væri í minnihluta um þessa skoðun á tónheyrn, en eftir viðræður við nemendur á síðari árum námsins hefur komið í ljós að þessi skoðun er almenn. Er ekki dálítið skrítið að innprenta það í fólk að fag sé ótrúlega mikilvægt fyrir framvinu náms, en sýna aldrei fram á ástæðu/notagilda viðkomandi kunnáttu? Hvað er eiginlega svona mikilvægt?

Hér gæti ég bætt við sögu um tónheyrnarkennara í norskum raunveruleikasjónvarpsþætti. En þetta er bara orðið svo ótrúlega löng færsla að ég efast um að neinn nenni að lesa alla leið hingað.

Þið segið til ef þið viljið söguna um tónheyrnarkennarann.